Vann stóra vinninginn og ferðast nú um landið

Eyþór Örn Eyjólfsson og fjölskylda hans njóta nú ferðalags í …
Eyþór Örn Eyjólfsson og fjölskylda hans njóta nú ferðalags í kringum landið eftir að Eyþór bar sigur úr býtum í leiknum „söngur sumarsins“ á K100.

Eyþór Örn Eyjólfsson hafði heppnina með sér í sumarleiknum „Söngur sumarsins“ á K100 en hann vann ferðalag um landið fyrir alla fjölskylduna auk fleiri glæsilegra vinninga á dögunum. Fjölskyldan hóf ferðalagið í kringum landið á laugardaginn, 8. ágúst, á glænýrri Toyota Land Cruiser-bifreið. Fjölskyldan mun vera á ferðalagi um landið fram til 15. ágúst.

Eyþór ræddi bæði við morgunþáttinn Ísland vaknar og blaðamann K100.is um ferðalagið hingað til sem hann segir að hafi slegið rækilega í gegn hjá fjölskyldunni, sem samanstendur af Eyþóri og eiginkonu hans, Ingibjörgu Björnsdóttur, og sonunum Daníel Erni, 17 ára, Eyjólfi Erni, 11 ára, og hvolpinum Lunu.

Eyþór og fjölskylda hefðu viljað verja meiri tíma í Vestmannaeyjum.
Eyþór og fjölskylda hefðu viljað verja meiri tíma í Vestmannaeyjum.

Segir Eyþór að dagsferðin til Vestmannaeyja, fyrsta viðkomustaðarins í hringferðinni, hafi verið frábær og fjölskyldan hafi jafnvel viljað verja meiri tíma á eyjunni fögru. Fór fjölskyldan meðal annars á safnið Eldheima að læra um sögu Vestmannaeyja og á fjórhjól með Volcano ATV sem Eyþór segir að hafi vakið mikla lukku hjá drengjunum tveimur.

Fjölskyldan naut þess að rúnta um Eyjuna, fara í gönguferðir og prófuðu auk þess að fara í sprönguna frægu þar sem peyjarnir fengu að spreyta sig. Ljúffengur matur var borðaður á veitingastaðnum Gott en Eyþór segir nauðsynlegt að smakka matinn á staðnum þegar komið væri til Vestmannaeyja.

Fjórhjólaferð Volcano ATV stóð upp úr hjá fjölskyldunni, sérstaklega drengjunum …
Fjórhjólaferð Volcano ATV stóð upp úr hjá fjölskyldunni, sérstaklega drengjunum tveimur en Daníel Örn, sonur Eyþórs og Ingibjargar fékk í fyrsta sinn að keyra tryllitækið á meðan móðir hans sat aftan á, „örlítið sterssuð en lifði ferðina af“ að sögn Eyþórs. Sagði hann að leiðsögnin og sagan sem fylgdi ferðinni hafi verið frábær viðbót.

Allt of stutt stopp í Eyjum

„Okkar stopp í Vestmannaeyjum var allt of stutt en við hefðum getað verið einhverja daga að gera allt sem okkur langaði að gera. Við eigum pottþétt eftir að koma aftur til Vestmannaeyja og skoða eyjuna betur,“ segir Eyþór við K100.is.

Næst á dagskrá hjá fjölskyldunni var Reynisfjara en fjölskyldan gisti á Íslandshóteli við Jökulsárlón fyrstu nóttina sem Eyþór segir að hafi verið frábært eftir stórkostlegan dag. 

Á degi tvö fór fjölskyldan í bátsferð með Glacier Lagoon í Jökulsárlóni. Þrátt fyrir rigningu og þoku, „ekta íslenskt veður“, segir Eyþór að stórkostlegt hafi verið að sigla um og skoða ísjakana. Þá skemmdi það ekki fyrir að rekast á seli í lóninu.

Jökulsárlón stóð fyrir sínu en fjölskyldan naut þess að fara …
Jökulsárlón stóð fyrir sínu en fjölskyldan naut þess að fara í siglingu um lónið með Glacier Lagoon.

„Við höfum í gegnum árin stoppað í Jökulsárlóni og labbað um en það er allt annað en að fara í svona bátsferð en í ferðinni fengum við mjög áhugaverða fræðslu. Þvílík fegurð sem landið okkar hefur upp á að bjóða,“ segir Eyþór.

Heimilislegt að koma í sjávarþorp eins og Fáskrúðsfjörð

Eftir siglinguna var haldið til Fáskrúðsfjarðar þar sem fjölskyldan fékk gistingu á Íslandshóteli. Eyþór segir að vel hafi verið tekið á móti fjölskylduhundinum Lunu á hótelinu en það þótti honum mikilvægt enda er hundurinn aðeins fjögurra mánaða gamall en fjölskyldan skipulagði ferðina með hana í huga. „Það var aldrei spurning um að taka hana með okkur í ferðalagið enda er Luna partur af fjölskyldunni,“ segir Eyþór.

Kvöldamatur á Café Sumarlínu sló í gegn hjá fjölskyldunni en Eyþór segir afar heimilislegt að koma í sjávarþorp eins og Fáskrúðsfjörð.

Luna, sem er fjögurra mánaða Tibetian Spaniel fjölskyldunnar, naut sín …
Luna, sem er fjögurra mánaða Tibetian Spaniel fjölskyldunnar, naut sín á Fáskrúðsfirði með fjölskyldunni.

Frá Fáskrúðsfirði hélt fjölskyldan áleiðis til Húsavíkur með stoppi á Eskifirði og á Egilsstöðum. Eyþór segir að hann hefði fengið þá frábæru hugmynd á leiðinni að stoppa á Kárahnjúkum áður en komið væri á Húsavík en hann hafi endað á að taka vitlausa beygju. 

Fjölskyldan er með lager af grímum með sér á ferðalaginu …
Fjölskyldan er með lager af grímum með sér á ferðalaginu en Eyþór segir að þau hafi getað gert allt sem þau hafi langað til að gera þrátt fyrir að COVID-19 sé að gera landanum erfiðara fyrir. „Stemningin er góð og það virðast allir vera að gera sitt besta. Fólk er meðvitað um mikilvægi tveggja metra reglunnar. Við erum með lager af grímum og spritti í bílnum þannig að við erum góð.“

„Þá var gott að vera á Land Cruiser. Við vorum lent á malarvegi sem var greinilega ekki sérstaklega fjölfarinn. Við komumst þó á leiðarenda en þetta tók aðeins lengri tíma en áætlað var,“ segir Eyþór sem segir veðrið hafa verið frábært þegar komið var til Húsavíkur. Fjölskyldan gisti á Fosshótel Húsavík þar sem þau borðuðu og nutu kvöldsins í göngu um bæinn.

Fjölskyldan hefur að sögn Eyþórs lent í alls konar veðri …
Fjölskyldan hefur að sögn Eyþórs lent í alls konar veðri á ferðalaginu eins og við er að búast á ferðalagi innanlands. Bæði hafa þau lent í rigningu og roki og sól og blíðu en einnig rákust þau á regnboga á ferðalagi sínu. „Við fórum með það hugarfar af stað í ferðalagið að veðrið skipti ekki máli. Við erum með góðan fatnað sem við fengum hjá Zo-on. Það skiptir miklu máli að vera í góðum fatnaði en þá er maður bara nokkuð góður,“ sagði Eyþór.

Fjölskyldan stefnir á að dvelja á Húsavík í þrjár nætur og fara meðal annars í hvalaskoðun en auk þess ætla þau í dagsferð til Akureyrar. Eftir það verður ferðinni heitið til Stykkishólms þar sem fjölskyldan stefnir á að taka hring um Snæfellsnesið áður en fjölskyldan heldur aftur til höfuðborgarinnar. 

Eyþór ræddi við morgunþáttinn Ísland vaknar um ferðalagið en hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að neðan.

mbl.is

#taktubetrimyndir