Siggi Pálma: „Það erfiðasta sem ég hef þurft að gera“

„Þetta hefur ekki verið svo auðvelt. Af því að þú byrjar að „matcha“ og svo þarftu náttúrulega að búa til samtöl og þetta er það erfiðasta sem ég hef nokkurn tímann þurft að gera,“ sagði söngvarinn Sigurður Helgi Pálmason, spurður úr í vikulanga reynslu sína á Tinder í morgunþættinum Ísland vaknar í gærmorgun. 

Eins og að veiða krossfisk

„Tinder er eins og að standa úti í fjöru og sjá krossfisk og reyna að lesa úr krossfisknum hvernig honum líður og reyna að fá athygli,“ sagði söngvarinn sem þekktur er undir nafninu Siggi Pálma.

„Þú þarft að hljóma áhugaverður við manneskju. Þetta er bara svo erfitt. Það er nógu erfitt þegar þú ert að hitta manneskju,“ sagði hann og staðfestir að honum hafi gengið afar illa hingað til á Tinder.

Hefur klúðrað öllum samtölum

„Ég er sem sagt búinn að klúðra öllum samtölum vegna þess að húmorinn minn er eins og hann er. Þannig að ég byrja alltaf á því að reyna að vera fyndinn sem er svona „varnar-mechanismi“ hjá mér,“ útskýrði Siggi. „Það var ein sem ég var að spjalla við og það fyrsta sem mér datt í hug, vegna þess að þegar ég skoðaði myndirnar þá fannst mér hún vera svo hávaxin. Þannig að það fyrsta sem mér datt í hug var að það væri mín skylda að láta hana vita hvað ég væri lágvaxinn. Það var mín leið til að fá athygli hjá konu. Það var að segja að ég væri svona lítill,“ sagði hann og uppskar mikinn hlátur í stúdíóinu. „Þegar ég var búinn að senda þetta var ég bara: Guð minn góður. Var þetta það besta sem þú komst með. Að segja manneskjunni að ég væri svona lítill.“

Siggi Pálma sagði mikilvægt að fylgja ýmsum reglum á Tinder og stiklaði á stóru um það í þættinum. 

Hlustaðu á allt spjallið við Sigga Pálma í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist