Héldu að platan auglýsti kynlífsunað

Bedroom Thoughts er fyrsta sóló-plata Bergrósar.
Bedroom Thoughts er fyrsta sóló-plata Bergrósar. Ljósmynd/Aðsend

Söngkonan Bergrós hefur nú gefið út sína fyrstu EP-plötu en hún staðfestir að erfiðlega hafa tekist að auglýsa plötuna, sem heitir Bedroom Thoughts eða Svefnherbergishugsanir, á Facebook en samfélagsmiðillinn tók fyrstu kynninguna á plötunni út af miðlinum. Fékk Bergrós þá skýringu að miðillinn gæti ekki auglýst „kynlífsunað“ (e. sexual pleasure) sem hún segir að hafi ekki verið meiningin með nafngift plötunnar. 

„Ég er ekkert að því,“ sagði Bergrós í samtali við Ísland vaknar á K100 og hló. „Ég er bara að hugsa og ég er bara að gefa út plötu,“ bætti hún við en hún segir hugsanir í svefnherberginu geta verið margs konar. „Ég held að hver og einn sé með mismunandi. Svona almennt, þegar hausinn er á milljón og maður er að hugsa, er lagstur á koddann,“ sagði söngkonan sem segist ekki vita hvers vegna Facebook hafi verið á móti auglýsingunni. 

Aðspurð segir hún að öll platan fjalli nokkurn veginn um sambönd. 

[Lagið] A Good Thing er svona um byrjunina á sambandi þegar maður er svona ekki alveg viss hvort maður á að treysta hinni manneskjunni, sagði Bergrós sem segir tónlistina á plötunni flokkast sem svokallað R&B pop.

Hægt er að hlusta á EP-plötuna Bedroom Thoughts á Spotify.

Hlustaðu á allt viðtalið við Bergrós í spilaranum hér að neðan. 

mbl.is