Nýja landsliðstreyjan vinsæl hjá útlendingum

Sala nýju landsliðstreyjunnar hefur farið vel af stað en forsala …
Sala nýju landsliðstreyjunnar hefur farið vel af stað en forsala hófst í morgun. Ljósmynd/Margt smátt

Forsala á nýju landsliðstreyjunni frá PUMA hófst kl. 10.08 í morgun og eru nú í boði nokkur hundruð treyja sem afhentar verða síðar í ágústmánuði. 

Í fréttatilkynningu frá Margt smátt, sem rekur fyririsland.is, þar sem salan fer fram, segir Árni Esra Einarsson, einn af eigendum Margt smátt, að hann hafi hlakkað mikið til að byrja að selja treyjurnar, sem margir hafa beðið eftir með eftirvæntingu enda liðin rúm tvö og hálft ár frá síðustu treyju.

„Við bjóðum einnig upp á merkingar á treyjunum, með því nafni og númeri sem hver kýs,“ segir hann en hann staðfestir að salan hafi farið frábærlega af stað og mikil umferð sé á síðunni. Segir hann jafnframt eftirtektarvert hve margir frá Evrópu og Bandaríkjunum séu að kaupa treyjurnar.

Ljósmynd/Margt smátt

Áður hefur verið greint frá því að myndum af nýju landsliðstreyjunni var lekið í maí þegar heimasíða Puma birti ljósmynd af Guðna Bergssyni, formanni KSÍ, og forstjóra Puma með bláu treyjuna sín á milli.

mbl.is