Bandaríska Eurovision gæti orðið „massíft“

Bandaríkjamenn stefna á að halda keppni sambærilegri Eurovsision næsta vetur.
Bandaríkjamenn stefna á að halda keppni sambærilegri Eurovsision næsta vetur. Samsett ljósmynd: Unsplash, mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eurovision hefur hafið innreið sína til Bandaríkjanna en búist er við því að fyrsta bandaríska söngvakeppnin, eða American Song Contest, verði haldin í lok árs 2021. Er um að ræða söngvakeppni með svipuðu sniði og Eurovision: sjónvarpaða keppni á milli allra fimmtíu ríkja Bandaríkjanna þar sem einhver frá hverju ríki syngur og flytur frumsamið lag.

Þetta staðfestir Felix Bergsson í samtali við Síðdegisþáttinn á K100 en hann kveðst hafa fengið nasaþefinn af því að keppnin, sem hafi verið í bígerð í langan tíma, væri að verða að raunveruleika í kringum síðustu jól þegar hann hitti Christer Björkman, einn framleiðanda Eurovision-keppninnar.

„Ég hitti Christer Björkman núna um jólin. Þá vorum við staddir í Tirana í Albaníu og vorum þar í dómnefnd. Þá var hann á leiðinni til Ameríku því þetta var einhvern veginn að fara að gerast,“ sagði Felix í Síðdegisþættinum.

Svo lengi sem Ameríku er ekki troðið inn í Eurovision

Aðspurður sagði hann að sér litist vel á þá hugmynd að hafa Bandaríkin sér á báti með eigin keppni. „Svo lengi sem þau fara ekki að troða Ameríku inn í Eurovision þá er ég rólegur. Það er alveg „stretching“ að vera með Ástralíu. Ég held að það sé raunin fyrir helstu eurovisionaðdáendur. Þar er „limitið“, fólk vill ekki meira, held ég,“ sagði Felix.

Sagði hann að hugmyndin hefði verið mörg ár í bígerð en mesta vandamálið hafi verið að reyna að finna samstarfsaðila til að vinna að þessu. Þeir virðast þó hafa fundist.

„Það er stóra málið. Það hafa allir áhuga á þessu þannig lagað því að þetta er „brilliant“ hugmynd. Ég er sannfærður um að Ameríka á eftir að taka þetta upp á næsta level,“ sagði Felix sem segir að sama hafi verið upp á teningnum í Asíu þar sem reynt hafi verið að koma sambærilegri keppni á kortið í fjölmörg ár. Það hafi þó ekki gengið jafn vel og í Bandaríkjunum enda meira mál að búa til keppni milli landa en ríkja.

Gæti orðið risastórt

„Ég held að þetta verði öðruvísi en Idol eða The Voice. Ég held að þetta verði miklu meiri keppni milli ríkjanna. Og ef þeir ná að starta þeirri stemningu getur þetta orðið risastórt. Ég tala nú ekki um ef hvert ríki fyrir sig fer að velja sinn keppanda í einhverjum forkeppnum þá verður þetta alveg „massíft“,“ sagði Felix.

 Kynningarmyndband fyrir bandarísku söngvakeppnina má sjá hér að neðan. 

 Hlutaðu á allt viðtalið við Felix Bergsson í Síðdegisþættinum í spilaranum hér að neðan.

mbl.is