„Baby“ snýr aftur í Dirty Dancing 2

Aðdáendur Dirty Dancing geta glaðst yfir því að framhald af …
Aðdáendur Dirty Dancing geta glaðst yfir því að framhald af myndinni vinsælu er væntanleg.

Jennifer Grey, sem þekkt er fyrir túlkun sína á persónunni Frances „Baby“ Housemann í dansmyndinni sígildu Dirty Dancing mun snúa aftur í væntanlegri framhaldsmynd af kvikmyndinni sem kom út fyrir 33 árum.

Framkvæmdarstjóri Lionsgate, sem er með einkarétt á Dirty Dancing, John Feltheimer, staðfesti orðróminn um framhaldsmyndina á föstudag. Greint er frá þessu á vef Deadline.

„Þetta verður nákvæmlega eins rómantísk og “nostalgísk“ bíómynd og aðdáendur hafa beðið eftir,“ sagði Feltheimer í samtali við Deadline. 

Jennifer Grey mun snúa aftur í framhaldsmynd dansmyndarinnar Dirty Dancing …
Jennifer Grey mun snúa aftur í framhaldsmynd dansmyndarinnar Dirty Dancing þar sem hún fór með hlutverk aðalpersónunnar Frances „Baby“ Housemann. Hér er leikkonan á forsýningu Captain Marvel í fyrra. AFP

Ekki er hefur fengist staðfest hvenær aðdáendur geta átt von á nýju myndinni og væntanlegur titill hennar hefur ekki enn verið tilkynntur.

Upprunalega Dirty Dancing kvikmyndin kom út árið 1987 og sló rækilega í gegn en myndin vann bæði til Óskarsverðlauna og Golden Globe-verðlauna fyrir lagið „I've Had The Time of My Life,“ eftir Frank Previte. Jennifer Grey var einnig tilnefnd til Golden Globe-verðlauna fyrir hlutverk sitt í myndinni.

Verður þetta fyrsta framhaldsmynd Dirty Dancing sem Jennifer Grey mun leika í en leikkonan var ekki með hlutverk í annarri dansmynd Lionsgate, Dirty Dancing: Havana Nights sem kom út árið 2004 og er eins konar forsaga upprunalegu myndarinnar. Patrick Swayze, sem fór með aðalhlutverkið á móti Grey í upprunalegu myndinni var með aukahlutverk í Havana Nights en hann lést úr krabbameini árið 2009.

Lokadansinn við verðlaunalagið „I've had the time of my life“ má rifja upp í spilaranum hér að neðan.

mbl.is