Vill að dýrin finni lífstíðarheimili eins og hún

Meena Kumar var yfirgefin sem barn og var ættleidd af …
Meena Kumar var yfirgefin sem barn og var ættleidd af foreldrum sínum þegar hún var tveggja ára gömul. Hún ver nú miklum tíma í að hjálpa hundum í hundaathvarfi að finna lífstíðarheimili líkt og hún sjálf gerði sem barn. Skjáskot af Youtube @Muttville Senior Dog Rescue

Hin 14 ára gamla Meena Kumar, búsett í Kaliforníu, hefur lagt mikið af mörkum til þess að hjálpa gömlum hundum að finna heimili fyrir lífstíð. Hefur hún passað gæludýr í mörg ár og með því safnað 14 þúsund dollurum, eða tæpum tveimur milljónum íslenskra króna, til styrktar hundaathvarfinu Muttville Senior Dog Rescue.

Meena var ættleidd þegar hún var tveggja ára og frá unga aldri hefur hún haft mikla ánægju á því að leika við dýr. Átta ára fékk hún hundinn Bambie, sem fjölskyldan bjargaði úr athvarfi. Meena er tíður gestur hjá Muttville-hundaathvarfinu og langaði hana til þess að hjálpa eldri hundunum að fá heimili, þar sem ekki var algengt að þeir væru ættleiddir. Segir hún þá trygga og ljúfa og auðvelt að þykja vænt um þá.

Gat ekki ættleitt alla hundana

Þar sem hún mátti ekki ættleiða alla hundana ákvað hún að leggja sitt af mörkum og safna peningum fyrir þá, sem hún hefur gert frá níu ára aldri. Hún stofnaði sitt eigið fyrirtæki sem hún kallar Pet Fairy Services og gefur launin sín til Muttville.

Segir hún það mjög góða tilfinningu að geta bjargað lífi þessara hunda og að hún vilji að þeir fái gott eilífðarheimili, eins og hún sjálf. Hefur þessi kraftmikla unga stúlka háleit markmið og er komin í samstarf við fyrirtækið Pebble Naturals sem hjálpar henni að fjármagna og safna styrkjum fyrir athvarfið. Móðir Meenu segir að það sé dásamlegt að fylgjast með þessu fallega ferðalagi dóttur sinnar og þau séu þakklát fyrir það sem hún kennir þeim. 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist