Skólastjórinn: „Ekki snerta þetta“

Skólastjóri í Childersburg High School í Bandaríkjunum gerði stórskemmtilegt myndband …
Skólastjóri í Childersburg High School í Bandaríkjunum gerði stórskemmtilegt myndband við viðeigandi lagið „Can't touch this“ til að hvetja nemendur sína til að fara varlega og huga að heilbrigði á komandi skólaári. Skjáskot úr myndskeiði

Lagið Can't Touch This kom út árið 1990 og er flutt af tónlistarmanninum MC Hammer. Lagið er sögulegt og eflaust margir sem kannast við það, en á íslensku þýðir það einfaldlega „Mátt ekki snerta þetta“. Því má segja að það eigi ágætlega við núna á tímum Covid-19, þar sem fólk reynir eftir bestu getu að snerta ekki óþarfa hluti og halda fjarlægð.

Skólastjóri í Childersburg High School í Alabamaríki í Bandaríkjunum ákvað á dögunum að endurgera texta og myndband við þetta grípandi lag með það í huga að hvetja nemendur sína til þess að fara varlega og huga að heilbrigði á skólaárinu sem senn er að hefjast. Í viðtali við Alabama News Center sagðist hann hafa skrifað textann á korteri, heyrt svo í leikstjóranum Jaylen Mitchell og fengið hjálp nokkurra nemenda og kennara.

Í myndbandinu dansar hann um, leggur áherslu á tveggja metra regluna og handþvott og mikilvægi þess að vera með grímu og sótthreinsi. Myndbandið hefur slegið í gegn með tæplega fimm milljón áhorf á rúmri viku. Skemmtileg leið til þess að koma að mikilvægum skilaboðum! 

Frétt af Al.com.

mbl.is