Sóttkvíar-Tina Turner slær í gegn

Austyn Farrel létti aldeilis lundina hjá nágrönnum sínum í sóttkvínni …
Austyn Farrel létti aldeilis lundina hjá nágrönnum sínum í sóttkvínni og einangruninni vegna kórónuveirufaraldurs. Skjáskot af Instagram @austyn_farrell

Breski dansarinn og skemmtikrafturinn Austyn Farrell hefur aldeilis létt lundina hjá nágrönnum sínum í sumar. Á meðan fólk í Bretlandi hélt sig mestmegnis heima við stóð Farrell úti á miðri götu í hverfinu sínu þar sem hann sýndi dansrútínur klæddur í glæsileg föt og hælaskó. Tók hann meðal annars „Proud Mary“ eftir Tinu Turner sem féll vel í kramið hjá fólki í kring. Nágrannarnir hölluðu sér út um gluggann og dönsuðu með í garðinum sínum. Kallar hann Tinu-eftirhermu sína „Quarantina Turner“ eða „sóttkvíar-Tina Turner“.

Frá mánudegi til föstudags dansaði Farrell um götuna við ýmsa smelli; allt frá lögum Disney-prinsessa til Dolly Parton. Atriði hans við „9-5“, eitt frægasta lag Dollyar, fékk meira að segja viðbrögð frá söngkonunni sjálfri.

Dansaði með krabbameinssjúku barni og safnaði fyrir lyfjameðferð

Hefur Farrell vakið mikla athygli og lukku og meðal annars verið sýndur í sjónvarpinu. Á instagramsíðu sinni deilir hann fjölda skemmtilegra dansmyndbanda og var meðal annars með danstíma fyrir unga krakka. Einn krakkanna sem dönsuðu með honum er hinn fimm ára Jago sem er greindur með krabbamein og setti Farrell af stað söfnun fyrir hann svo fjölskyldan hefði efni á nauðsynlegri lyfjameðferð.

Aðspurður sagðist Farrell hafa ótrúlega gaman af að fá fólk til þess að brosa og verður að segjast að honum hefur tekist það vel!

Frétt frá LGBTQ Nation.

Æðibit­inn DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um í sam­starfi við Æðibita.

mbl.is