Jón og Ásgeir fengu loks ósk sína uppfyllta

Jón Axel og Ásgeir Páll glöddust mjög þegar Hreimur ákvað …
Jón Axel og Ásgeir Páll glöddust mjög þegar Hreimur ákvað að klára lagið Hó hó hó, smellum fingrum í takt en Ingibjörg Gunnarsdóttir samdi texta við lagið.

Jón Axel og Ásgeir Páll, tveir af stjórnendum morgunþáttarins Ísland vaknar, fengu langþráða ósk sína uppfyllta í dag þegar tónlistarmaðurinn Hreimur Örn Heimisson frumflutti lag sem þeir eiga hlutdeild í, lagið Hó hó hó, smellum fingrum í takt, í fullri lengd í stúdíói K100 í morgun.

Hlustendur morgunþáttarins ættu að kannast við laglínu Jóns og Ásgeirs sem þeir hafa sungið fyrir fjölda tónlistarmanna sem hafa heimsótt stúdíóið í von um áhuga á laginu.

Það var þó ekki fyrr en nú eftir að textahöfundurinn Ingibjörg Gunnarsdóttir samdi sérstakan texta við laglínuna og Hreimur bauðst til að klára lagið sem lagið varð að veruleika.

Lagið vakti mikla kátínu og lukku í stúdíói K100 í morgun, sér í lagi hjá Ásgeiri og Jóni, en nú er næst á dagskrá að taka lagið upp og gefa það út. 

Frumflutning Hreims á laginu umtalaða og söguna af tilurð þess má sjá og heyra í spilaranum hér að neðan.

mbl.is