Snúa öllu á hvolf og fagna fjölbreytileikanum

K100 mun svo sannarlega hækka í gleðinni á morgun en …
K100 mun svo sannarlega hækka í gleðinni á morgun en stöðin mun breytast í Hinsegin100 í einn dag og tileinka alla dagskrá hinsegin dögum með tilheyrandi glimmeri og gleði. Siggi Gunnars í Síðdegisþættinum og Kristín Sif í Ísland vaknar verða að sjálfsögðu í fullu fjöri í tilefni dagsins.

Allt kynningarefni og öll dagskrá útvarpsstöðvarinnar K100 verður gjörbreytt á morgun, föstudag, og fær stöðin tímabundið nýtt og viðeigandi nafn í tilefni hinsegin daga sem nú standa yfir og verður að Hinsegin100 í einn dag.

Mun dagskrá stöðvarinnar taka mið af hinsegin málefnum og verður tónlist tengd réttindabaráttu hinsegin fólks í forgrunni. Áhugaverðir gestir heimsækja stöðina og fagna fjölbreytileikanum með þáttastjórnendum en Siggi Gunnars og Logi Bergmann snúa aftur með Síðdegisþáttinn sama dag eftir gott sumarfrí.

Halda sýnileika hinsegin fólks á lofti

„Við ætlum að bregða á leik og breyta út frá venjulegri dagskrá og lagalistum þennan eina dag. Við sláum upp heljarinnar veislu og fögnum fjölbreytileikanum. Það er sérstaklega mikilvægt í ár þar sem engin gleðiganga mun fara fram og viðburðum hefur verið aflýst. Því leggjum við okkar á vogarskálarnar til þess að halda sýnileika hinsegin fólks á lofti og keyra upp gleðina í landinu, enda er það okkar aðalsmerki, að hækka í gleðinni,“ segir Siggi Gunnars, dagskárstjóri K100, brosandi í samtali við K100.is. 

Hægt verður að vera með og taka þátt og fagna fjölbreytileikanum með því að nota myllumerkið #hinseginheima en Hinsegin dagar hvetja fólk til þess að skreyta umhverfið sitt regnbogalitum og fara í sínar eigin litlu gleðigöngur á laugardaginn. 

mbl.is