Brúðhjón í áfalli eftir sprenginguna í Beirút

Seblani stillti sér upp í fallegum brúðarkjól nokkrum sekúndum fyrir …
Seblani stillti sér upp í fallegum brúðarkjól nokkrum sekúndum fyrir sprenginguna sem eyðilagði brúðkaupsmyndatöku hennar. Skjáskot úr myndbandi

Hin 29 ára gamla brúður Israa Seblani stóð ljómandi í brúðarkjól í miðri brúðkaupsmyndatöku þegar risasprenging varð í Beirút, höfuðborg Líbanons, í vikunni. Myndband sem tekið var af Seblani þar sem hún stillir sér upp fyrir myndatökuna rétt fyrir sprenginguna hefur farið sem eldur í sinu um netið en myndbandið sýnir augnablikið sem sprengingin verður og höggbylgja skellur á Seblani.

Seblani segist í samtali við The Reuters þakklát fyrir að vera enn á lífi eftir sprenginguna sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti en í myndbandinu sjást verðandi brúðhjónin forða sér undan eyðileggingu sprengingarinnar sem dró að minnsta kosti 137 manns til dauða. 

„Guði sé lof að við erum á lífi“

„Ég var búin að vera að búa mig undir stóra daginn í tvær vikur og var svo hamingjusöm, rétt eins og allar aðrar stelpur: „Ég er að fara að gifta mig,“ sagði Seblani sem starfar sem læknir í Bandaríkjunum en ferðaðist til Beirút fyrir þremur vikum til að giftast ástinni sinni, Ahmad Subeih. 

Subeih, unnusti Seblani, rifjaði upp upplifun sína á sprengingunni í samtali við The Reuters og sagði að þau Seblani hefðu verið í áfalli eftir sprenginguna. 

„Við erum enn í áfalli ... Ég hef aldrei heyrt neitt líkt hljóðinu í þessari sprengingu,“ sagði hann.

„Ég er svo leið yfir því hvað kom fyrir annað fólk og yfir því sem hefur gerst í Líbanon. Það eina sem ég gat sagt þegar ég vaknaði og sá eyðilegginguna í Beirút var: Guði sé lof að við erum enn á lífi,“ sagði Seblani.

Myndbandið af brúðkaupsmyndatöku Seblani má sjá hér að neðan.

Frétt The Reuters.

mbl.is