Nokkur tól til að róa taugakerfið á álagstímum

Mikið álag og stress hefur fylgt síðastliðnum dögum en það …
Mikið álag og stress hefur fylgt síðastliðnum dögum en það er ýmislegt sem hægt er að gera til að takast á við kvíðann. Þar spilar hin svokallaða vagas-taug mikilvægt hlutverk. mbl.is/Unsplash

Mig langar til þess að segja ykkur aðeins frá hinni svokölluðu vagus-taug heilans, sem er ótrúlega merkilegt fyrirbæri sem ég hef nýlega áttað mig á. Snillingurinn hún mamma mín sagði mér frá þessu síðastliðna helgi þar sem töluvert álag lá í loftinu.

Kvíði getur verið óhjákvæmilegur og yfirþyrmandi og erfitt að læra inn á hann. Sérstaklega á sinn eigin kvíða. Það eru nokkur tól sem við getum gripið í sem við vitum að láta okkur líða betur. Andardráttur og jóga hefur til dæmis skilað sér virkilega vel fyrir mig, en ég hef kannski aldrei velt því fyrir mér hvers vegna mér líður betur út frá því. Ég bara veit að þannig er það.

Taugin sem ráfar um líkamann

Ég kynntist hins vegar nú á dögunum vagus-tauginni og er búin að lesa frábærar fræðigreinar um hana, þá meðal annars er grein á natural.is sem ég styðst við hér. Vagus-taugin liggur frá botni heilans niður í gegnum hálsinn, þaðan út í bringuna og teygir sig svo alla leið niður í maga. „vagus” þýðir „ráfandi” á latínu og vagus-taugin ráfar einmitt niður líkamann og á sama tíma snertir hún hjartað og næstum því öll mikilvægustu líffæri líkamans. Hún er gjarnan kölluð „ótrúlegt innra skynkerfi”, þar sem hún vinnur við að stýra öndun, hjartslætti, vöðvum, meltingu, blóðrásarkerfi og meira að segja raddböndunum. Það er ekki lítið það!

Taugin hefur beina tengingu við andlega heilsu, þar sem lágur „vagal“-tónn er tengdur við slæma líðan, bólgur, þunglyndi og er notaður sem mælikvarði fyrir það hversu viðkvæm manneskja er fyrir streitu. Á sama tíma er heilbrigður „vagal“-tónn tengdur við algjöra andstæðu, þ.e. tilfinningalegt og andlegt jafnvægi. Því myndi ég segja að það væri ansi mikilvægt að kynna sér þetta til að geta gripið í það sérstaklega á tímum sem einkennast af óvissu og eiga það til að vera yfirþyrmandi.

Við getum nefnilega gert heilmikið til þess að styrkja vagus-taugina okkar. Djúpur andadráttur með þindinni er til dæmis eitt af því sem eflaust margir kannast við og hafa kannski nýtt sér!

Söngur, tónlist og hlátur eru góð tól

Fleira sem mér fannst virkilega skemmtilegt að geta gripið í er söngur og tónlist. Rannsóknir sýna fram á að söngur hefur líffræðilega róandi áhrif sem er beintengt við vagus-taugina. Það má vera óm í sitjandi stöðu, rólegar möntrur, að kyrja eða bara að garga uppáhalds Britney Spears lagið þitt.

Svo er það hláturinn. Hlátur er tengdur við örvun á vagus-tauginni. Hvað er líka skemmtilegra en að fá hláturskast?

Það eru til heilmikið af skemmtilegum og sniðugum leiðum til þess að virkja vagus-taugina okkar og færa okkur betri líðan og stjórn á henni. Mér finnst þetta alveg ótrúlega skemmtilegt og sniðugt, enda hef ég oft þurft á því að halda að geta gripið í eitthvað þegar taugarnar eru aðeins farnar fram úr sjálfri mér. Ég mæli því með því að kynna sér þetta og kanna hvaða áhrif auðveldar aðferðir geta haft á okkur.

Annars vona ég eindregið að þið farið vel með ykkur. Ég hugsa til ykkar allra og munum að vonin er alltaf til staðar.

Æðibit­inn DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um í sam­starfi við Æðibita.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist