Þórólfur orðinn þreyttur á veirunni

„Faraldurinn er í vexti erlendis og aldrei hafa greinst jafn …
„Faraldurinn er í vexti erlendis og aldrei hafa greinst jafn mörg tilfelli og núna. Þannig að við erum aldeilis ekki að sjá fyrir endann á þessum faraldri á heimsvísu,“ sagði sóttvarnalæknir í samtali við Ísland vaknar í morgun. Hann mun fara yfir stöðu mála á upplýsingafundi fyrir fjölmiðla kl. 14 í dag ásamt hinum hluta þríeykisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir viðurkennir að hann sé nú, líkt og margir Íslendingar, kominn með leið á kórónuveirunni sem veldur COVID-19 og kveðst skilja það vel að Íslendingar séu orðnir þreyttir á aðgerðunum. Hann leggur þó áherslu á að það þýði ekki að gefast upp vegna þess enda ekki útlit fyrir að hægt sé að sjá fyrir endann á faraldrinum, sem sé í vexti víða erlendis, í bráð.

Hann ræddi um ástandið í samfélaginu og aðgerðir vegna hugsanlegrar annarrar bylgju kórónuveirufaraldurs sem nú er í gangi í morgunþættinum Ísland vaknar í morgun og líkti faraldrinum meðal annars við ferðalag í Þórsmörk. 

Aldeilis ekki að sjá fyrir endann á faraldrinum

„Ég held að það sjái allir að það eru allir orðnir hálfþreyttir á þessu og ég skil það bara vel. Þetta er ástand sem menn héldu kannski að myndi ganga yfir á nokkrum mánuðum og væri svo bara búið. En það er aldeilis ekki svo. Faraldurinn er í vexti erlendis og aldrei hafa greinst jafn mörg tilfelli og núna. Þannig að við erum aldeilis ekki að sjá fyrir endann á þessum faraldri á heimsvísu,“ sagði Þórólfur í þættinum. Bætti hann við að á meðan ástandið í heiminum væri eins og það væri myndi veiran alltaf finna leið inn í landið, „jafnvel þótt við reynum að loka mikið eða lítið“, þá myndi hún komast inn. 

„En við munum hafa einhverja stjórn á því og lágmarka áhættuna með því að hafa þessa skimun í gangi,“ sagði hann. 

„Jú, ég er orðinn þreyttur á þessari veiru en það þýðir ekkert að gefast upp við það.“

Eins og ferðalag í Þórsmörk

Spurður hvort þjóðin væri nú komin aftur á upphafsreit varðandi faraldurinn sagði Þórólfur svo ekki vera. 

„Nei alls ekki, ég hefði líkt þessu við að við erum að fara inn í Þórsmörk og erum að fara yfir Krossá sem þvælist þarna um aurana. Við erum komin í eitthvað milliástand áður en við leggjum í næsta álinn,“ sagði Þórólfur. Sagði hann aðspurður að þjóðin væri á „fínum“ jeppa fyrir ferðalagið. „Ég held að hann sé bara fínn ef við stýrum honum rétt og förum rétt í strauminn. Þá komumst við yfir,“ sagði sóttvarnalæknir.

Þórólfur mun fara yfir stöðu mála á upplýsingafundi fyrir fjölmiðla klukkan 14 í dag ásamt Ölmu D. Möller landlækni og Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

 Hlustaðu á allt viðtalið við sóttvarnalækni í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist