Syngur „Húsavík“ á íslensku

Söngkonan Katrín Ýr, sem búsett er í London, gaf út ábreiðu af laginu Húsavík  My hometown úr eurovisionmynd Wills Ferrells með íslenskum texta fyrir helgi. Nokkrar vikur eru síðan Katrín deildi ábreiðu af laginu á ensku á Youtube en hátt í 70 þúsund manns horft á myndbandið. 

„Ég tók eitt „cover“ og setti á Youtube og er búin að fá mjög góð viðbrögð svo ég gerði íslenska útgáfu af laginu,“ sagði Katrín í viðtali við Ísland vaknar á K100 í gærmorgun. Íslenska útgáfan hefur strax vakið mikla lukku meðal aðdáenda kvikmyndarinnar ef marka má athugasemdir undir myndbandinu.

Staðfesti Katrín að hún hefði fengið fyrirspurnir um að flytja lagið Ja Ja Ding Dong, sem einnig er úr myndinni, en bæði lögin hafa slegið í gegn víða um heim, lögin eru til að mynda bæði á Tónlistanum sem geymir 40 vinsælustu lög landsins.

Tók Katrín fram að í sinni útgáfu af laginu Húsavík væri ekkert „r“ í Skjálfanda líkt og í upprunalegri útgáfu af laginu en nokkuð hefur verið bent á að framburður hinnar sænsku My Marianne, sem flytur lagið í myndinni, á íslenskum hluta lagsins sé undarlegur.

Sjálf þýddi Katrín textann á íslensku ábreiðunni af Húsavík  My hometown en hana má heyra hér fyrir neðan.


 

Hlustaðu á spjallið við Katrínu í Ísland vaknar á K100

mbl.is