Standa saman gegn COVID í magnaðri auglýsingu

Segja má að ný auglýsing frá Nike hafi sett netið á hliðina á dögunum en yfir 41 milljón hefur þegar horft á myndbandið frá því það var gefið út á YouTube fyrir helgi. 

Auglýsingaherferðin gengur undir nafninu „You Can't Stop Us“ eða „Þú getur ekki stöðvað okkur“ og leggur þannig áherslu á það að íþróttafólk standi saman gegn faraldri kórónuveirunnar sem hefur haft gríðarleg áhrif á íþróttir um allan heim. 

Er myndefni snilldarlega skipt í tvennt í myndbandinu sem sýnir íþróttafólk hvaðanæva úr heiminum að verki. Í tilkynningu frá Nike kemur fram að lokaðar líkamsræktarstöðvar og tómir íþróttavellir hafi ekki stöðvað íþróttafólk í að stefna áfram og nota sinn eigin vettvang til að breyta heiminum og er markmið myndbandsins að hvetja íþróttafólk til dáða á þessum erfiðu tímum.

Auglýsinguna má sjá í spilaranum hér að neðan.

mbl.is