Enn með skert bragð- og lyktarskyn 4 mánuðum síðar

Regína er enn með skert bragð- og lyktarskyn rúmum fjórum …
Regína er enn með skert bragð- og lyktarskyn rúmum fjórum mánuðum eftir að hún greindist með COVID-19. Hún kveðst enn passa sig „jafn mikið og allir aðrir“ enda sé óvíst hvort mótefnið sem hún hafi myndað við COVID-19 virki gegn stökkbreytingu á veirunni. Samsett ljósmynd: AFP mbl.is/Eggert

Rúmlega fjórir mánuðir eru liðnir frá því Regína Ósk söngkona var greind með smitsjúkdóminn COVID-19 og missti í kjölfarið allt bragð- og lyktarskyn. Þrátt fyrir að hafa náð sér af sjúkdómnum og myndað mótefni gegn veirunni glímir söngkonan enn við skerta virkni fyrrnefndra skynfæra. Hún ræddi um einkenni sín og upplifun í morgunþættinum Ísland vaknar á K100 í morgun.

Regína ræddi síðast um eftirköst sjúkdómsins í Síðdegisþættinum á K100 júní en hún segir lítið hafa breyst síðan þá nema það að nú sé hún farin að finna undarlegt óbragð og ólykt í tíma og ótíma sem hún kalli COVID-bragðið og -lyktina.

„Maður er búinn að bíða núna í rúmlega fjóra mánuði og það er bara ekkert að frétta,“ sagði Regína sem segist þó finna einhvern mun á því hvort hún sé að borða sætan, beiskan eða sterkan mat. Sagðist hún til að mynda aldrei hafa verið hrifin af sterkum mat fyrr en eftir veikindin og kveðst nú vera mikill aðdáandi chilli og jalapeno þar sem hún finni meira fyrir bragði af slíkum mat.

Sagði Regína að eiginmaður hennar, sem hafi gaman að því að elda, fengi nú fullt leyfi til að krydda matinn eins og hann vilji enda finni hún lítið fyrir því. 

Finnur „COVID-bragð“ og „COVID-lykt“

„Svo er maður svo vanur. Ég var að elda grjónagraut um daginn og ætlaði að smakka hann til en svo hugsaði ég: Hvað ertu að gera? Þú getur ekkert smakkað þetta til. Ég veit ekkert hvað ég er að setja mikið salt og ekki neitt svo ég þarf alltaf að fá hjálp við það,“ sagði Regína og bætti við að það væri þó margt bæði jákvætt og neikvætt við ástandið.

„Ég hef náttúrulega ekki fundið lykt sem mér finnst ekki góð, einhverja skítafýlu. En á móti kemur að ég finn heldur enga góða lykt. Nýjasta þróunin hjá mér, sem gerðist bara í síðustu viku, er að ég er farin að finna svona óbragð og ólykt í tíma og ótíma sem ég kalla núna COVID-bragðið og COVID-lyktina sem er svolítið ógeðsleg lykt. Svona sæt sótthreinsifýla einhver,“ útskýrði söngkonan sem segist fyrst hafa fundið fyrir þessu þegar hún var að drekka Pepsi Max í síðustu viku.

„Ég bara: Bíddu? Er þetta eitthvert ónýtt Peps Max? Þetta hlýtur að vera vond dós eða eitthvað. En svo kom þetta líka þegar ég var að fá mér papriku,“ sagði Regína og bætti við að það væri núna alltaf að bætast við matur sem hún gæti ekki lengur borðað vegna þess að hún tengdi hann við þetta vonda bragð. Sama væri uppi á borðinu með það sem hún kallaði COVID-lyktina sem hún segir aðra ekki finna.

Óvíst hvort hún geti smitast aftur

Regína sagði aðspurð að enn væri lítið af svörum að fá frá heilbrigðisstarfsfólki varðandi eftirköst veikindanna enda væri lítið vitað um áhrif veirunnar.

„Ég er í hópi á Facebook, þar sem við erum svona samfélag COVID-smitaðra, og þetta er alveg þekkt vandamál. Ég er ekki sú eina sem er að díla við þetta og þeir [læknarnir] vita ekki neitt. Þeir klóra sér bara í hausnum,“ sagði hún. „Þeir segja bara: Þetta hlýtur að koma. Og það er ekki bara þetta. Það eru alls konar eftirköst. Ég til dæmis er líka að díla við að ég er mikill lestrarhestur en ég hef ekki lesið bók síðan í mars,“ sagði Regína sem segist glíma við einbeitingarskort eftir veikindin. Sagði hún marga einnig glíma við þróttleysi og þreytu eftir að hafa smitast af veirunni.

Kvaðst hún vera óörugg um það hvort hún gæti smitast aftur af veirunni og sagði að fólk sem hafi smitast af veirunni áður hafa fengið afar óljós svör frá heilbrigðisstarfsfólki um það hvort það ætti á hættu á að smitast af henni í annað sinn. Þá sé hugsanlegt að mótefnið sem fólk hafi mótað virki ekki gegn nýrri stökkbreytingu á veirunni. 

„Þannig að ég er alveg að passa mig jafn mikið og allir aðrir,“ sagði hún.

Hlustaðu á allt viðtalið við Regínu í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is