„Ég get stokkið út í vatnið því ég er prinsessa!”

Stúlka nokkur nær að hvetja sjálfa sig nægilega mikið til …
Stúlka nokkur nær að hvetja sjálfa sig nægilega mikið til að takast á við óttann við sundlaugina. Skjáskot úr myndskeiði

Það er mikilvægt að standa með sjálfum sér og kunna að hvetja sig áfram þegar á móti blæs. Í gær rakst ég á myndband sem fékk mig bæði til þess að brosa og til þess að minna sjálfa mig á þetta. Myndbandið sýnir litla stelpu sem býr sig undir að stökkva út í sundlaug til föður síns. Hún var greinilega svolítið hrædd við laugina og þurfti á smá hvatningu að halda.

Móðir hennar náði stúlkunni á myndband þar sem hún dregur sig örlítið til hlés og segir við sjálfa sig: „Ég er sterk. Ég er súpersterk. Ég get farið í vatnið. Ég get stokkið út í vatnið því ég er prinsessa!“

Eftir það snýr hún sér við og stekkur út í til pabba síns. Hvatningarorð geta nefnilega virkað ótrúlega vel, sama hver þau eru og hverjar aðstæðurnar eru. Við getum oft meira en við höldum og það er mikilvægt að minna sig á það að maður er sterkur og ákveðinn. Í þessu hverfula og stundum krefjandi lífi mæli ég eindregið með því að vera sinn helsti stuðningsmaður.

Æðibit­inn DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um í sam­starfi við Æðibita.

mbl.is