Noti ímyndunaraflið í kynlífi verslunarmannahelgarinnar

Það er hægt að njóta með ýmsum hætti þessa undarlegu …
Það er hægt að njóta með ýmsum hætti þessa undarlegu verslunarmannahelgi. Samsett ljósmynd: Unsplash, mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fyrsti verðandi kynlífsmarkþjálfi Íslands, Kristín Þórsdóttir, mætti í morgunþátt K100 Ísland vaknar í gærmorgun og ræddi um kynlíf verslunarmannahelgarinnar sem nú er gengin í garð. Sagði hún mikilvægt að nota ímyndunaraflið og gefa sér tíma hvort fyrir annað, jafnvel þótt fólk gengi jafnvel ekki „alla leið“ í kynlífinu og ætti bara kósístundir saman.

Fólk er kannski að fara í sumarbústað. Náttúrlega ekki á einhverjar útihátíðir eða neitt svoleiðis. Þá er hægt að gera alls konar kósí og nota ímyndunaraflið,“ sagði Kristín. Hvatti hún fólk til að eyða tíma saman og fyrir foreldra að svæfa börnin snemma og fara í „picnic“ á gólfinu í sumarbústaðnum. „Ef maður er bara heima um helgina, sem er mjög skynsamlegt samkvæmt þríeykinu, að gefa sér þá tíma til að sinna hvort öðru,“ sagði hún.

„Ef maður er einhleypur mæli ég með að fara á losti.is eða blush.is og kaupa sér eitthvað. Bara nota ímyndunaraflið,“ sagði Kristín en hún benti á að þar sem það væru að koma mánaðamót gæti fólk leyft sér að kaupa alls konar hjálpartæki til að birgja sig upp. 

Hún mælti með því að fólk notaði spil eins og spilið „Út fyrir kassann“ til þess að kynnast betur og dýpka sambandið. „Það er skemmtilegur bunki, þannig getur maður kynnst betur. Það er ekkert gróft, bara svona um sambandið. Til dæmis hvaða lag minnir mig á þig. Þetta skapar alls konar umræður og kósíheit,“ sagði hún. 

„Svo er hægt að fara í fjöruferð í picnic með rauðvín og osta og nota náttúruna sem við höfum,“ bætti hún við. „Vera smá í sleik og horfa á sólarlagið.“

Hlustaðu á allt spjallið við Kristínu Þórsdóttur í spilaranum hér að neðan.mbl.is