Veiran eini sökudólgurinn

Víðir
Víðir Ljósmynd/Lögreglan

„Ein staðreyndin er sú að veiran kom aftur inn í landið við opnun landamæranna. Önnur staðreyndin er sú að hundruð eða þúsundir manna fengu vinnu við opnun landamæranna. Menn fengu störf víða um land og efnahagurinn tók kipp. Það þarf að horfa út frá mörgum sjónarmiðum,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra í samtali við Ísland vaknar í morgun, spurður út í það hvort hann teldi að eitthvað hefði átt að gera öðruvísi til að koma í veg fyrir annan faraldur kórónuveirunnar hér á landi. 

„Íslendingar sem búa erlendis eða hafa dvalið erlendis gátu komið heim og hitt fjölskyldurnar sínar og það hefur náttúrlega verið stærsti hópurinn sem hefur komið og líka stærsti hópurinn sem hefur borið smitin,“ sagði Víðir.

Fólk beiti ekki smitskömm

„Það er eitt sem maður sér núna, umræðan sem við lögðum svolítið mikla áherslu á í vor að menn væru ekki að beita því sem við getum kallað „smitskömm“ og væru að benda á einhverja. Nú eru menn jafnvel nafngreindir og menn eru tengdir svo mikið við einhvern atburð að það vita allir hverjir viðkomandi eru. Ég held að við þurfum aðeins að vanda okkur í þessu,“ sagði Víðir í viðtalinu spurður út í þá reiði sem virðist ríkja hjá sumum í samfélaginu vegna útbreiðslunnar. „Það er ekki að fara að hjálpa neinum að benda á þá sem hafa veikst. Það ætlar enginn að veikjast og ætlar enginn að smita neinn annan en þessi veira er það sem við eigum að horfa á. Það er erfitt að beina reiðinni gagnvart henni en hún er eini sökudólgurinn.“

Viðtalið við Víði má heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan.  

 

mbl.is