Siggi Sigurjóns: „Hann var stórbrotinn karakter“

„Við vorum búin að þekkjast og starfa saman í rúm …
„Við vorum búin að þekkjast og starfa saman í rúm 50 ár í raun og veru,“ sagði Sigurður Sigurjónsson leikari um vináttu sína við Gísla Rúnar Jónsson leikara sem féll frá í vikunni. Aðsend ljósmynd, mbl.is/Freyja Gylfa

Sigurður Sigurjónsson leikari er einn þeirra sem þekkti leikarann og leikstjórann Gísla Rúnar Jónsson vel en þeir þekktust og störfuðu saman að sögn Sigurðar í rúm 50 ár. Tilkynnt var um andlát Gísla Rúnars í fyrradag en hann lést á heimili sínu á þriðjudag, 67 ára að aldri. Sigurður ræddi um vináttu sína við leikarann ástsæla í einlægu viðtali í morgunþættinum Ísland vaknar á K100 í gærmorgun.

Einn hæfileikaríkasti listamaður þjóðarinnar

„Það er ekki auðvelt að lýsa Gísla heitnum í stuttu máli. Hann var stórbrotinn karakter og án vafa, og ég fullyrði það bara, einn sá hæfileikaríkasti listamaður sem þjóðin hefur átt. Það er ekki nokkur einasta spurning. Gísli var að mörgu leyti skrítin skrúfa en um leið skemmtileg skrúfa,“ sagði Sigurður. 

Siggi Sigurjóns og Gísli Rúnar voru perluvinir og yfirleitt stutt …
Siggi Sigurjóns og Gísli Rúnar voru perluvinir og yfirleitt stutt í grínið hjá vinunum. Myndin er tekin í 60 ára óvæntri afmælisveisla Gísla Rúnars í Silvurtunglinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hef ekki séð annað eins með neinum manni á lífsleiðinni. Það er búið að gráta mikið úr hlátri í gegnum tíðina,“ sagði hann og tók undir það að herbergi hefðu fyllst af brosi og ljósi í hvert sinn sem Gísli Rúnar gekk inn. „Ég er ekki viss um að almenningur átti sig almennt á hvað það er mikið magn af efni sem hann framleiddi og sá til þess að yrði gert,“ sagði Sigurður sem kvað Gísla hafa verið algjöran brautryðjanda og frumkvöðul í framleiðslu á grínefni.

Sigurður og Gísli Rúnar brölluðu ýmislegt saman í gegnum tíðina. …
Sigurður og Gísli Rúnar brölluðu ýmislegt saman í gegnum tíðina. Meðal annars voru þeir báðir í Úllen Dúllen Doff. Talið frá vinstri, Randver Þorláksson, Sigurður Sigurjónsson, Gísli Rúnar Jónsson og Edda Björgvinsdóttir. Mbl.is/Úr safni

„Bjó til eitthvert sjálfstraust hjá mér“

Sagði Sigurður að Gísli væri einn af þeim sem hefðu hjálpað sér hvað mest með eigin leikaraferil og nefndi þá sérstaklega Áramótaskaupið frá 1981, sem Gísli leikstýrði, en þá kallaði Gísli Rúnar Sigurð fyrst til liðs við sig.

„Það breytti miklu fyrir mig þar sem þetta var í fyrsta skipti sem ég tók þátt í skrifum á grínefni. Hann bjó til eitthvert sjálfstraust hjá mér sem nýttist mér svo síðar á lífsleiðinni þegar ég fór sjálfur að taka þátt í svona skrifum,“ sagði hann.

Hlustaðu á allt viðtalið við Sigurð í spilaranum hér að neðan.

mbl.is