Háhyrningskýr sem synti með dauðan kálf sinn kálffull á ný

Vísindamenn vonast til að kálfur Tahlequa komist á legg en …
Vísindamenn vonast til að kálfur Tahlequa komist á legg en eru ekki bjartsýnir. Af Wikipedia

Háhyrningskýrin Tahlequa eða J-35, sem snerti hjörtu heimsbyggðarinnar eftir að hún missti kálf sinn rétt eftir fæðingu fyrir tæpum tveimur árum og synti með hræ kálfs síns um hafið undan vesturströnd Kanada í um 17 daga, er nú kálffull á ný samkvæmt heimildum Seattle Times.

Ekki bjartsýnir á að meðgangan gangi upp

Meðgöngur háhyrninga af þeim stofni sem Tahlequa er af, sem er í útrýmingarhættu, heppnast fæstar og eru vísindamenn sem fylgjast með háhyrningum á svæðinu því ekki mjög bjartsýnir á að ófæddur kálfur Tahlequa muni lifa af. Vilja vísindamenn því biðla til sjómanna að virða svæði háhyrninganna og gefa þeim ró og næði.

Stofn­in­um á svæðinu er skipt í nokkr­ar fjöl­skyld­ur sem vís­inda­menn ein­kenna með bók­stöf­um; J, K og L, og fá dýrin heiti út frá því hvaða fjölskyldu þau tilheyra.

Aðeins 72 háhyrningar eru nú eftir af stofninum svo hvert afkvæmi skiptir miklu máli. Aðeins þriðjungur meðganga gengur þó upp hjá stofninum og er lítill árangur hans til að fjölga sér tengdur við streituna sem fylgir fæðuskorti og hungri sem hann lifir við en laxastofninn, sem er helsta fæða háhyrninganna, hefur minnkað gríðarlega á síðustu árum.

Hafa áhyggjur af Tahlequa

„Við höfum áhyggjur af því að ef hún eignast kálfinn, hvort hún muni geta hugsað um sjálfa sig, um kálfinn og J47 [eldri kálf hennar],“ segir Holly Fearnbach, einn af þeim líffræðingum sem fylgist grannt með hvölunum á svæðinu en hún er ein þeirra sem uppgötvaði að Tahlequa væri kálffull eftir að myndir náðust af háhyrningnum.

Vísindamenn munu halda áfram að fylgjast með hvölunum og vonast til að sjá Tahlequa verða þreknari með hverjum mánuði, en meðganga háhyrninga er um 18 mánuðir. Fyrsti háhyrningskálfurinn sem fæddist og lifði af hjá stofninum í fimm ár var kálfurinn Lucky sem tilheyrir L-fjölskyldunni hjá stofninum en hann fæddist í fyrra.

„Fólk verður að gera sér grein fyrir að þetta eru sérstakir hvalir á sérstökum stað á viðkvæmum tíma,“ sagði John Durban, einn helsti vísindamaðurinn á svæðinu. „Þessir hvalir eiga skilið að fá tækifæri.“

Frétt Seattle Times.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir