Sendi aldrei skilaboð svöng

Dj Dóra Júlía sér um að deila Ljósa punktinum á …
Dj Dóra Júlía sér um að deila Ljósa punktinum á tilverunni á K100. mbl.is/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Eins og flestir í kringum mig vita er ég forfallinn aðdáandi jóga. Ég hef stundað það af krafti síðastliðin ár og meira að segja stóð til að fara í jógakennaranám fyrr á þessu ári, en örlögin ráða um hvenær það verður að veruleika! Það er margt sem maður lærir af jóganu og byrjar að tileinka sér í daglegu lífi, stundum jafnvel ómeðvitað. Eitt sem ég hef sérstaklega tekið eftir er það hvernig ég bregst við hlutum og aðstæðum.

Jógakennarinn minn talar oft um viðbrögð og viðbragðstíma. Hvernig við ákveðum að kljást við það sem mætir okkur og hvað við getum haft mikið vald yfir því, þó að auðvelt sé að gleyma því stundum. Það er nefnilega þannig að við þurfum ekki að grípa fyrstu tilfinningu sem kemur í magann okkar og fylgja henni eftir. Oft getur djúpur andardráttur til dæmis verið gott hjálpartæki til þess að sjá aðstæður með yfirvegun. Annað sem ég hef tileinkað mér er að vera aldrei fljót á mér þegar ég er svöng. Ef ég þarf að senda einhver skilaboð eða tjá mig er í 100% tilvika betra að vera búin að borða og melta orðin mín áður en ég sendi þau út í cosmosið.

Vellíðanin sem fylgir því að standa á jógadýnunni þarf ekki að einskorðast við jógatímann, og þetta gildir um vellíðan almennt. Eftir að ég prófaði að taka það sem lætur mér líða vel með mér inn í aðrar aðstæður fór hugsunarháttur minn, samskipti og almenn líðan að breytast til hins betra. Við höfum ofurkraft innra með okkur sem heitir yfirvegun og yfirvegunin er magnað fyrirbæri. Þegar við gefum okkur smá tíma til að bregðast við og öndum okkur í gegnum það sem lífið býður okkur upp á finnst mér tilveran verða djúpstæðari og betri. Vandamálin eru jú óhjákvæmileg en lausnirnar liggja oft nær okkur en við höldum. Og ef hlutirnir ganga ekki upp nákvæmlega eins og við vildum hafa þá höfum við allavega ofurkraftinn innra með okkur, höldum í vonina og trú á okkur sjálf og vitum að það verður allt í lagi.

Æðibit­inn DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um í sam­starfi við Æðibita.

mbl.is