Drekka freyðivín í hlaupinu sem varð óvart vinsælt

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend Ljósmynd/Aðsend

Vinkonurnar Birna Jónsdóttir og Rakel Hlynsdóttir standa fyrir sérstöku Prosecco-hlaupi næsta fimmtudag, 6. ágúst. Er þetta í annað sinn sem hlaupið er haldið en markmið hlaupsins er að fá konur til að koma saman í sumarkjólum, hlaupa fimm kílómetra frá Elliðaárdalnum og drekka saman freyðivín. 

„Þetta varð vinsælla en við áttum von á. Í fyrra höfðum við þennan viðburð okkar á milli. Við ætluðum nefnilega bara að bjóða vinkonum okkar en höfðum óvart merkt viðburðinn „public“. Þegar við vöknuðum daginn eftir voru mörg hundruð manns búin að skrá sig.

„Þetta hlaup varð því óvart vinsælt,“ sögðu Birna og Rakel í samtali við Ísland vaknar á K100 í vikunni.

„Hlaupið er ætlað konum sem eru orðnar tvítugar, eiga sumarkjól og ískalda freyðivín í ísskápnum,“ sögðu þær spurðar um það hvort karlmenn mættu vera með í hlaupinu. „Körlum er alveg velkomið að  mæta en þá þætti okkur vænt um að sjá þá í kjól. Það var einn sem mætti í fyrra.“

Ýmis fyrirtæki styrkja viðburðinn að þessu sinni og verður ýmis konar góðgæti á boðstólnum fyrir þátttakendur, meðal annars makkarónur frá Sætum syndum og Prosecco frá Globus og Ölgerðinni. Lifandi tónlist verður einnig á staðnum og mikil partístemning.

Hægt er að fá upplýsingar um viðburðinn á facebook-síðu Prosecco-hlaupsins 2020.

Hlustaðu á viðtalið við Birnu og Rakel í Ísland vaknar.

 

mbl.is