Var á fyrstu Jólagestaplötunni

Margrét Eir og Björgvin Halldórsson syngja í fyrsta sinn saman …
Margrét Eir og Björgvin Halldórsson syngja í fyrsta sinn saman dúett í laginu Piltur og stúlka sem var gefið út á dögunum.

Tónlistarkonan Margrét Eir gaf á dögunum út glænýtt kántrí-skotið lag með Björgvini Halldórssyni sem er einmitt sá Íslendingur sem hefur gefið út hvað mest af kántrí-tónlist hér á landi. Lagið heitir Piltur og stúlka og er þetta í fyrsta skipti sem tónlistarstjörnurnar syngja saman dúett en Margrét benti á að hún hafi þó sungið með Björgvini einu sinni áður sem 13 ára gömul kórmær. Margrét mætti í stúdíó K100 í vikunni og ræddi um tónlistina.

 „Ég held að sumir séu með vissa hugmynd um það hvernig kántrí-tónlist er en hún er svo svakalega fjölbreytt. Ég flokka alveg Eagles undir kántrí,“ sagði Margrét í viðtalinu spurð út í það hvort hún fyndi fyrir því að fólk væri með fordóma fyrir kántrí.

„Þeir [Eagles] eru alveg kántrí en þá fer það meira í svona „folk-music“-, „mountain-music“- kántrí. En svo er líka til svona „Hurdy Gurdy“-kántrí,“ sagði Margrét og söng sýnishorn úr slíku lagi og uppskar mikinn hlátur í stúdíóinu. „Það eru löngu r-in,“ bætti hún við.

„Þannig að það eru til margar týpur af kántrí. Þetta eru oft sterkir textar og sögur sem fylgja þessari tónlist. Ég meina sjáið bara Dolly Parton og allar þessar drottningar sem eru að semja um lífið sitt,“ sagði Margrét. 

Heiður að syngja með Bó

Sagði hún að það væri sannur heiður að fá að syngja með Björgvini Halldórssyni eða Bó eins og hann er oft kallaður, eftir 27 ár í tónlistarbransanum.

„En ég sagði við Björgvin um daginn að ég var á fyrstu Jólagestaplötunni. Þar var ég reyndar 13 ára gömul kórmær. En ég var fyrsti jólagesturinn samt sem áður,“ sagði Margrét kímin.

Lagið Piltur og stúlka er samið af eiginmanni Margrétar, Jökli Jörgensen, og mun koma fram á plötu sem hún vinnur nú að ásamt honum.  „Hún [platan] er svolítið kántrískotin. Það eru svona alls konar lög,“ sagði Margrét sem segir að ensk útgáfa af laginu með Björgvini hafi einnig verið tekið upp en það heitir á ensku „Little Boys“.

Lagið Piltur og stúlka má heyra á streymisveitunni Spotify í spilaranum hér að neðan.

 Viðtalið við Margréti má í heild sinni sjá í spilaranum hér að neðan. 

mbl.is