Fengu að nefna soninn Lucifer

Starfsmaður á skráningarskrifstofunni í Derbyshire í Bretlandi reyndi að fá …
Starfsmaður á skráningarskrifstofunni í Derbyshire í Bretlandi reyndi að fá foreldra Lucifers litla til að hætta við að nefna barnið opinberlega nafni sem er tengt við djöfulinn. Benti hann meðal annars á að ólöglegt væri að heita þessu nafni á Nýja-Sjálandi. Hann hefði einnig getað bent á Ísland en mannanafnanefnd hefur nokkrum sinnum hafnað nafninu hér á landi. Ljósmynd/Unsplash

Bresku hjónin Dan og Mandy Sheldon fengu á dögunum að gefa syni sínum opinberlega nafnið Lucifer sem fyrsta nafn. Nafnagjöfin gekk þó ekki átakalaust fyrir sig því starfsmaðurinn sem tók við umsókninni á skráningarskrifstofu í Derbyshire, þar sem fjölskyldan er búsett, neitaði í fyrstu að verða við því að skrásetja barnið opinberlega undir nafninu Lucifer.

Dan Sheldon og Lucifer litli.
Dan Sheldon og Lucifer litli. Skjáskot úr myndskeiði

Að því er fram kemur í umfjöllun The Sun um málið sagði starfsmaðurinn að drengnum, sem nú er fjögurra mánaða gamall, myndi ekki ganga vel í lífinu ef hann yrði nefndur fyrrnefndu nafni þar sem það væri annað nafn yfir djöfulinn.

Faðirinn lagði inn formlega kvörtun í kjölfarið vegna meðferðar starfsmannsins.

Sagði að drengurinn fengi aldrei vinnu

„Við vorum mjög spennt að fá að skrásetja hann en konan horfði á okkur með hreinum viðbjóði,“ sagði Dan Sheldon en skrifstofan var aðeins nýopnuð aftur eftir að hafa verið lokuð vegna kórónuveirufaraldurs þegar hjónin fóru að láta skrásetja soninn í þarsíðustu viku.

„Hún sagði okkur að hann myndi aldrei fá vinnu og að kennarar myndu ekki vilja kenna honum. Ég reyndi að útskýra fyrir henni að við værum ekki trúuð og að nafnið Lucifer þýddi „ljósberi“ og „morgunn“ en hún hlustaði ekki á það. Hún sagði okkur jafnvel að það væri ólöglegt að nefna barn þessu nafni á Nýja-Sjálandi og að við ættum frekar að nefna hann eitthvað annað og kalla hann bara Lucifer heima,“ sagði Dan. „Á endanum gerði hún það [samþykkti nafnið] en hún gerði það gnístandi tönnum. Okkur fannst þetta hreinskilnislega fallegt nafn og einstakt. Við bjuggumst ekki við því að lenda í svona miklu veseni út af því,“ sagði hann. 

Sýslunefnd Derbyshire baðst formlega afsökunar á því að hjónin hafi móðgast yfir meðferðinni en sögðu það vera hluta af starfi starfsmanna sem sjá um skrásetningar að ráðleggja og upplýsa fólk sem oft væri ekki meðvitað um merkingar nafna.

Ekki leyft á Íslandi

Vakin skal athygli á því að hérlendis gilda mun strangari reglur um nöfn en í Bretlandi. Nafnið Lucifer, eða íslensk útgáfa af nafninu: Lúsífer, hefur til að mynda ekki verið leyft hér á landi en beiðnir um nafnið hafa borist mannanafnanefnd nokkrum sinnum. Nú síðast var beiðni Ingólfs Arnars Friðrikssonar um að breyta millinafni sínu í Lúsífer hafnað af nefndinni en hann tjáði sig um þetta í samtali við mbl.is í apríl á árinu. 

Rætt var við Dan Sheldon í breska sjónvarpsþættinum The Morning fyrir helgi en þar útskýrði hann nafnaval þeirra hjóna til hlítar. Viðtalið má sjá hér að neðan.

Frétt The Sun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

#taktubetrimyndir