Datt ekki í hug að úlpa gæti orðið taska

Instagram/Flokk.til.lyou.drop

Ég má til með að hrósa nýja uppáhalds Instagram-reikningnum mínum FLOKK TILL YOU DROP. Á bak við hann eru þær Rebekka Ashley Egilsdóttir nýútskrifaður vöruhönnuður, Melkorka Magnúsdóttir mannfræðinemi og Berglind Ósk Hlynsdóttir fatahönnunarnemi.

Nú í sumar vinna þær hörðum höndum að því að flokka heilt tonn af textíl sem fólk víðs vegar um landið hefur sett í gáma Rauða krossins. Verkefnið er styrkt af nýsköpunarsjóði námsmanna, Rauða krossinum, LHÍ og HÍ.

Kviknaði hugmyndin hjá leiðbeinanda þeirra og Rauða krossinum sem höfðu samband við stelpurnar og tóku þær vel í þetta áhugaverða og mikilvæga verkefni. Ákveðið var að hafa góðan þverfagleika til þess að hafa víðara samhengi á verkefnið og möguleikana sem því fylgja.

Töskur úr handklæðum og joggingsett úr efnisbútum

Ég spjallaði aðeins við stelpurnar í gegnum Instagram og segja þær viðtökurnar hafa verið mjög góðar þar sem fólk er almennt mjög spennt yfir framtakinu og finnst gaman að fylgjast með þeim.

Stelpurnar hafa hannað ótrúlega skemmtilegar flíkur úr tonninu, en þar er meðal annars að finna töskur úr handklæðum, joggingsett úr efnisbútum og skvísutopp gerðan úr sæng. Þær eru staðsettar í hönnunarsafninu sem er opið öllum og hafa þær fengið til sín fólk að skoða sem spyr þær spjörunum úr. Einnig eru þær með fræðslu í „story“ á Instagram og segja þær viðbrögðin mikil, þar sem fólk er að átta sig betur á því hvaðan fötin koma og geri sér betur grein fyrir því hvað liggur að baki hverri flík.

View this post on Instagram

Töskur dagsins🤎 Handklæðatöskur fullkomnar í sundið og ein vélútsaumuð taska úr gluggatjöldum👀

A post shared by FLOKK TILL YOU DROP (@flokk.till.you.drop) on Jul 23, 2020 at 10:25am PDT

Vilja vekja fólk til umhugsunar

Þær vonast til þess að þetta veki fólk til umhugsunar um ofneysluna sem á sér stað og geri frekar við flíkurnar sínar, eða skapi ný verðmæti úr gömlum flíkum eins og þær hafa svo sannarlega sýnt fram á að hægt sé að gera. Þær segjast hafa lært heilmikil af þessu verkefni og þá sérstaklega hafi þær náð að fræðast um uppruna textílsins, aðstæðurnar í landinu, eiturefnin, áhrifin o.fl. en einnig það að sjá alla möguleikana sem hver flík hefur upp á að bjóða. Aldrei hefði þeim dottið í hug að úlpa gæti orðið handtaska eða að koddaver gæti orðið pils!

Ég mæli með því að fylgjast með þessu ótrúlega skemmtilega framtaki hjá þessum flottu stelpum. Þær verða með fatamarkað 8. ágúst næstkomandi í hönnunarsafninu þar sem hægt er að kaupa föt og fylgihluti sem þær hafa saumað í sumar og ég hlakka mikið til að kíkja á þær.

Æðibit­inn DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um í sam­starfi við Æðibita.

mbl.is