Mikilvægt að sýna ábyrgð í miðakaupum

Audrey Padgett, framkvæmdastjóri Sea Life Trust í Vestmannaeyjum, segir mikilvægt …
Audrey Padgett, framkvæmdastjóri Sea Life Trust í Vestmannaeyjum, segir mikilvægt að sýna ábyrgð og velja vel hvar keyptir eru aðgangsmiðar á söfn og sýningar þar sem hægt er að sjá hvali eins og mjaldra. Ljósmynd/Sea Life Trust

Audrey Padgett, framkvæmdastjóri Sea Life Trust í Vestmannaeyjum þar sem flutningur mjaldranna Litlu-Hvítrar og Litlu-Grárrar yfir á griðasvæði mjaldra í Klettsvík er nú í fullum gangi, segir ólíklegt að Litla-Hvíta og Litla-Grá muni nokkurn tímann geta lifað án umönnunar manna. Vonast hún þó til að griðasvæðið geti nýst einhverjum af þeim yfir 300 mjöldrum sem eru í haldi um heim allan.

Padgett heyrði í morgunþættinum Ísland vaknar á K100 í vikunni og ræddi þar hvalina tvo og framtíð griðasvæðisins í Vestmannaeyjum.

Sagði Padgett aðspurð að eitt það besta sem almenningur gæti gert til að hjálpa mjöldrum væri að sýna ábyrgð þegar ákveðið væri hvar keyptir væru aðgöngumiðar í ýmiss konar garða og sýningar þar sem hægt er að sjá hvali.

Skref í rétta átt

„Við getum öll verið ábyrgari þegar kemur að því hvar við kaupum aðgangsmiða, hvar við borgum fyrir að fara inn,“ sagði Padgett í viðtalinu. Sagði hún jafnframt mikilvægt að eiga samtal um breytta möguleika fyrir þá yfir 300 mjaldra sem eru vanir að vera í umönnun manna. 

„Við viljum vinna með stöðum sem vilja gefa dýrunum betri líf. Það eru jafnvel sum dýranna sem ekki er hægt að færa á griðasvæði en við getum lært hvernig hægt er að bæta umhverfið sem mjaldrarnir búa í til að bæta heilsu þeirra. Það er líka skref í rétta átt,“ sagði hún, en hún staðfestir að pláss sé fyrir allt að átta aðra mjaldra í griðasvæðinu í Klettsvík. Sagði hún að fjölgun mjaldranna myndi að öllum líkindum gera svæðið enn líkara náttúrulegum heimkynnum mjaldra, sem eru hópdýr og afar félagslyndir.

Padgett staðfestir að persónuleikar Litlu-grárrar og Litlu-Hvítrar séu mjög ólíkir. Litla-grá er að sögn mun opnari og félagslyndari og nýtur þess að skoða fólk og „tala“ við það. Litla-Hvít er aðeins hlédrægari og heldur sig yfirleitt lengra í burtu þar til hún ákveður að rannsaka eitthvað.

„Þær eru klárlega með mismunandi persónuleika og mismunandi nálgun á allt sem þær gera. Svo líta þær líka mismunandi út svo við getum auðveldlega þekkt þær í sundur þegar við vinnum með þeim á hverjum degi,“ sagði Padgett.

Hlustaðu á allt viðtalið við Audrey Padgett hjá Sea Life Trust í spilaranum.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist