Jóhannes í sóttkví á Írlandi fyrir tökur á nýjum þáttum

Jóhannes Haukur hefur nú verið í sóttkví á Írlandi í …
Jóhannes Haukur hefur nú verið í sóttkví á Írlandi í 11 daga en hann þarf að ljúka 14 daga sóttkví áður en hann getur hafist handa við næsta stóra verkefni, leik í nýjum Netflix-þáttum. Mynd/Haraldur Jónasson-Hari

Leikarinn og Netflix-stjarnan Jóhannes Haukur Jóhannesson þarf að sæta sóttkví í tvær vikur í hótelherbergi á Írlandi áður en hann mun byrja á næsta stóra verkefni sínu, nýrri sjónvarpsseríu á Netflix. Í samtali við Ísland vaknar í gær, mánudag, sagði leikarinn að hann mætti ekki tjá sig neitt um hina væntanlegu þætti sem hann staðfesti þó aðspurður að væru í tengslum við eitthvað sem fólk ætti að þekkja.

Sagði Jóhannes, sem er á degi 11 af 14 í sóttkví, að það væri afar undarlegt að vera í sóttkví á Írlandi og kvað dagana fljótt renna saman. Hann passaði sig þó að halda rútínu, borða hollt og gera sóttkvíar-æfingar sem hann segist hafa séð hjá Arnold Schwarzenegger.

Vorum heppin á Íslandi

„Þetta er ofboðslega „spes“. Maður áttar sig á því hvað við vorum heppin heima á Íslandi í öllu samkomubanninu því við máttum alltaf fara út. Það var ekki þetta útgöngubann eins og er búið að vera á mörgum stöðum í kringum okkur. Ég er að upplifa þetta núna. Að mega ekki fara út um dyrnar. Þetta er „spes“,“ sagði Jóhannes. „Allir dagar eru eins. Ég man ekkert hvað var á fimmtudaginn „versus“ þriðjudaginn. Þetta er einn langur dagur,“ sagði hann.

Jóhannes fer með hlutverk í fantasíu-seríunni Cursed sem kom út á Netflix á dögunum en þar leikur hann ískonunginn Cumber. Deildi hann meðal annars mynd af sér í hlutverkinu á Instagram-síðu sinni en í þáttunum skartar hann ljósum hanakamb sem kom til tals á K100.

Tökur á þáttunum munu hefjast í ágúst, eftir að Jóhannes lýkur sóttkví en tökurnar áttu upphaflega að byrja í apríl en var seinkað vegna kórónuveirufaraldurs. Býst Jóhannes við að vera við tökur á þáttunum fram að jólum og jafnvel lengur ef vel gengur.

„Ég er búinn að gera margra ára samning um þessa seríu en það er bara metið eftir hverja seríu hvort þeir haldi áfram eða ekki. Næstu árin verð ég í þessu ef vel tekst til með fyrstu [seríu].

Spurður um það hvort þættirnir væru eitthvað sem fólk ætti að þekkja játaði Jóhannes glettnislega en vildi ekki tjá sig meira um þættina af virðingu við Netflix. Bjóst hann þó við að von væri á fleiri upplýsingum eftir að tökur hæfust.

 Hlustaðu á allt viðtalið við Jóhannes í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is