Eignaðist afkvæmi þökk sé COVID-19

Gleði ríkir í dýragarðinum Everland Park í Suður-Kóreu um þessar …
Gleði ríkir í dýragarðinum Everland Park í Suður-Kóreu um þessar mundir en þar fæddist pandabjarnarungi á dögunum. Er unginn afrakstur sambands pandabjarnaparsins Ai Bao og Le Bao sem nýtti sér friðinn sem fylgdi lokun dýragarðsins vegna COVID-19 til að makast. Ekki er enn hægt að staðfesta hvort heppnin var með öðru pandabjarnapari sem makaðist í fyrsta sinn í tíu ár í apríl í dýragarðinum Ocean Park í Hong Kong í faraldrinum en dýragarðurinn vonast til að geta færst heiminum gleðifréttir fljótlega. AFP

Pandabirnan Ai Bao eignaðist á dögunum unga með karlpöndunni Le Bao í dýragarðinum Everland Park í Suður-Kóreu. Virðist parið hafa nýtt sér friðsældina í kórónuveirufaraldrinum og makast á meðan dýragarðinum var lokað í mars vegna hans. Er þetta fyrsti pandabjarnarunginn sem fæðist í landinu samkvæmt fréttavef Reuters og Good News Network.

Virðist móður og unga heilsast vel, en það mun taka fimm til sex mánuði fyrir afkvæmið að læra að klifra og éta sjálft bambus, sem er helsta fæða pandabjarna.

Afar sjaldgæft er að pandabirnir, sem eru í útrýmingarhættu, nái að makast úti í náttúrunni en kvenkyns pandabirnir fá ekki egglos nema einu sinni á ári og varir egglosið aðeins í einn til þrjá sólarhringa. Það má því alltaf telja það afrek þegar pandabirnir ná að makast.

Annað pandabjarnapar, Ying Ying og Le Le, í dýragarðinum Ocean Park í Hong Kong nýttu sér einnig friðsældina í kórónuveirufaraldrinum til að makast í fyrsta sinn í tíu ár í apríl. Dýragarðurinn sendi frá sér tilkynningu á laugardag um að birnan Ying Ying væri nú farin að sýna merki um þungun. Erfitt er þó að staðfesta þungun pandabjarna og því ekki hægt að segja til um það með vissu hvort lítill pandabjörn muni fæðast á næstunni. Vonast forsvarsmenn dýragarðsins til þess að geta greint frá gleðifréttum af pandabjarnaparinu fljótlega.

Hægt er að sjá Ai Bao og unga hennar í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir