Áherslan á Ísland „best í heimi“ vekur ugg

„Við þurfum að fara að skipta um gír svolítið núna …
„Við þurfum að fara að skipta um gír svolítið núna og hver er betur til þess fallinn að leiða þannig breytingar heldur en sá hópur samfélagsins sem á auðveldara með að vera í þessum gildum. Það eru konur,“ sagði Helga Baldvins Bjargardóttir, mannréttindalögfræðingur.

Helga Baldvins Bjargardóttir mannréttindalögmaður er ein þeirra sem fer fyrir samtökum kvenna um nýja stjórnarskrá en samtökin standa nú fyrir undirskriftalista um stuðning við nýju stjórnarskrána. Hún mætti í morgunþáttinn Ísland vaknar í vikunni og ræddi um mikilvægi nýrrar stjórnarskrár út frá mannréttindastjónarmiðum.

Sagði hún að nýja stjórn­ar­skrá­in væri stærsta skrefið sem þjóðin geti tekið í átt að meiri vald­dreif­ingu, gagn­sæi og í því að vinna gegn spill­ingu og að hags­mun­um heild­ar­inn­ar.

Íslenskar konur frægar fyrir kvennasamstöðu

„Við þurfum að fara að skipta um gír svolítið núna og hver er betur til þess fallinn að leiða þannig breytingar heldur en sá hópur samfélagsins sem á auðveldara með að vera í þessum gildum. Það eru konur,“ sagði Helga. „Konur á Íslandi eru frægar fyrir sína kvennasamstöðu. Að standa saman og vera saman í að leiða breytingar. Þannig að nú er bara komið að okkur að leiða þessar breytingar.“

Sagðist hún vera svolítið uggandi yfir áherslunni á Ísland sem „best í heimi“ í bæði kynjajafnrétti og mannréttingum. „Þá erum við ekki jafn tilbúin að skoða hvað þarf að gera. Eins og Þjóðverjar eru mjög meðvitaðir um sína sögu og skoða allt sem þarf að gera. Það er hellingur. Við verðum að vita hvaðan við erum að koma og þekkja söguna og hlusta. Hlusta á raddir jaðarsettra hópa. Við búum ekki við sömu reglur öll hérna,“ sagði Helga. 

Aðspurð sagði hún konur vera að mörgu leyti í góðum málum á Íslandi en bætti við að eins og víða annars staðar byggju Íslendingar við rosalega karllæg gildi. Sagði hún að stjórnmálin snerust til að mynda um eigin hagsmuni, yfirráð og völd sem væru þau öfl sem viðhéldu misrétti í öllum samfélögum. 

„Konur eru nú búnar að stofna þennan hóp og koma saman og eru bara orðnar svolítið pirraðar á því að Alþingi ætli trekk í trekk að horfa framhjá þessari þjóðaratkvæðagreiðslu frá 2012,“ sagði hún.

Fáránlegt að það sé lögmál að kvennastörf séu lægra borguð

„Það eru þessi kvenlægu gildi sem við erum að hugsa þetta út frá. Út frá mannréttindum og náttúruvernd, samvinnu og að við sitjum öll raunverulega við sama borð,“ sagði hún og bætti við að fyrrnefnd gildi væru grunngildin í nýju stjórnarskránni.

„Við erum mjög ríkt land af náttúruauðlyndum og það er fáránlegt að hér sé fólk sem búi við fátækt. Það er fáránlegt, við getum skipt öðruvísi,“ sagði Helga. „Það er fáránlegt að það sé eitthvað náttúrulögmál að kvennastörf séu alltaf lægra borguð. Það er fáránlegt að flugfreyjur og hjúkrunarfræðingar þurfi endalaust að standa í kjarabaráttu bara til að ná mannsæmandi launum.“

Hægt er að skrifa undir undirskriftalistann um nýja stjórnarskrá hér í gegnum rafrænt Ísland.

Hlustaðu á allt viðtalið við Helgu í Ísland vaknar á K100 í spilaranum hér að neðan. mbl.is