„Vaknaði ógeðslega reiður“

Hreimur Heimisson
Hreimur Heimisson Ljósmynd/Aðsend

Hreimur Örn Heimisson gaf út glænýtt lag í gær, föstudaginn, 24. júlí, en lagið, sem ber nafnið Lítið hús, er singúll af væntanlegri plötu tónlistarmannsins sem hann stefnir á að gefa út í október. Hann segir að nýja lagið hafi verið samið fyrir hálgerða tilviljun en lagið birtist honum í draumi sem hann lýsti í útvarpsþættinum Ísland vaknar á K100. 

Hreimur hefur unnið að því að taka upp plötuna ásamt með tónlistarmanninum Vigni Snæ Vigfússyni sem hann segir að sé mikill „nákvæmnispési“ í stúdíóinu. 

„En Vignir er bestur í heimi en hann er rosa nákvæmur þegar kemur að stúdíó vinnu,“ sagði Hreimur. Aðspurður um tilurð nýja lagsins sagði hann að það hafi komið til hans í undarlegum draumi þar sem Vignir spilaði stórt hlutverk.

„Hvar er restin af laginu?“

„Við [Vignir] erum búnir að vera svolítið mikið og lengi að vinna og hann er búinn að vera að nostra í smáatriðunum og ég fer náttúrulega bara heim. Svo á föstudagskvöld fer ég að sofa og svo vakna ég klukkan hálf fimm með lag í hausnum vegna þess að mig dreymdi að ég væri í stúdíóinu hjá Vigga, rosa ánægður með lagið. Svo var ég að spila það fyrir hann og þá sagði hann: En hvar er restin af laginu?“ útskýrði Hreimur og sagði að hann hafi verið mjög fúll og móðgaður við Vigni í draumnum. 

„Hann sendir mig út úr stúdíóinu og segir bara: Hreimur, þú mátt ekkert koma með hálfklárað lag til mín. Ég vaknaði ógeðslega reiður við Vigni,“ sagði Hreimur sem segist í framhaldinu hafa tekið upp símann og tekið upp lagið sem hann mundi úr draumnum. Það hafi síðar orðið að laginu Lítið hús. 

Lagið er flutt af Hreimi ásamt söngkonunni Fríðu Hanssen sem hann segir að hafi oft unnið með honum. „Ég fékk hana til að syngja þetta lag,“ sagði hann en lagið má heyra á Spotify og má nálgast hér fyrir neðan.

Hlustaðu á allt viðtalið við Hreim í spilaranum hér að neðan.

mbl.is