Fannst vanta íslenskt tölvuleikjaspjall

Gunnar og Arnór hafa mikinn áhuga á tölvuleikjum og gefa …
Gunnar og Arnór hafa mikinn áhuga á tölvuleikjum og gefa nú út vikulegt spjall um tölvuleiki í hlaðvarpsformi. Samsett ljósmynd: Aðsend, Unsplash

Hlaðvarpsstjórnendurnir og vinirnir Arnór Steinn Ívarsson og Gunnar Björnsson hafa alltaf haft mikinn áhuga á tölvuleikjum en þeir byrjuðu á dögunum með vikulegt íslenskt hlaðvarp um allt sem tengist tölvuleikjum, R2 L2 tölvuleikjaspjallið.

Í samtali við K100.is segir Arnór að þeim hafi þótt vanta íslenskt hlaðvarp um tölvuleiki og tölvuleikjaspilun, tómstundaiðju sem hefur farið ört vaxandi á síðustu árum og hefur aldrei verið vinsælli en nú. 

„Ég hugsaði að ég hlusta sjálfur á tölvuleikjahlaðvarp frá Bandaríkjunum en það eru nánast bara til erlend hlaðvörp,“ sagði Arnór en bætti við að aðstandendur afþreyingarsíðunnar Nörd Norðursins hafi lengi verið eina íslenska hlaðvarpið sem snerti á tölvuleikjum en hefðu þó ekki gefið út nýjan þátt nema á nokkurra mánaða fresti. Þeir Gunnar hafi því ákveðið að gefa út nýjan þátt vikulega.

Segir Arnór að viðtökurnar hafi verið vonum framar en hann og Gunnar hafa þegar gefið út sex þætti sem er hægt að nálgast á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

„Markmiðið er að hafa svona spjallstemningu um tölvuleiki og allt sem tengist þeim. Ekki bara að vera að spila þá og koma með gagnrýni á þá heldur lík að tala um hluti sem tengjast tölvuleikjum og tölvuleikjamenningu. 

Ekki bara strákamenning

Ætla þeir Arnór og Gunnar meðal annars að fá gesti í Tölvuleikjaspjallið til sín en einn væntanlegur gestur í þáttinn er Jana Sól sem mun ræða um stelpur í tölvuleikjum. Jana Sól ræddi við mbl.is á dögunum um upplifun sína sem kvenkyns tölvuleikjaspilari og áreitið sem fylgdi því að vera stelpa í tölvuleikjum.

Sagði Arnór að þeir Gunnar hefðu mikinn áhuga á að pæla í menningunni sem fylgdi tölvuleikjum sem væri oft á tíðum mjög jákvæð þó að ýmsir kimar menningarinnar væru ekki til fyrirmyndar eins og í sambandi við jafnrétti kynjanna. 

„Mig langar rosa mikið að vekja meiri athygli á því að þetta er ekki bara strákamenning lengur,“ sagði Arnór sem segir kvenkyns tölvuleikjaspilara sífellt vera að verða meira áberandi í umræðunni. Hann viðurkenndi þó að stór hluti hlustenda Tölvuleikjaspjallsins væru enn sem komið er karlkyns og vonaðist til að geta aukið hlustun hjá kvenkyns spilurum.

Ert aldrei einn að spila tölvuleiki

Í einum af nýjustu þáttum  Tölvuleikaspjallsins reyna þeir Gunnar að svara ýmsum spurningum varðandi tölvuleiki, meðal annars hvers vegna maður sækir í að spila leiki og hvort tölvuleikjaspilun sé jákvæð.

Arnór segir að þeir hafi í stuttu máli komið að því að tölvuleikjaspilun sé góð.

„Við töluðum aðallega um að þegar við vorum að alast upp og vorum að spila tölvuleiki í grunnskóla þá var rosalega vinsælt að tala neikvætt um tölvuleiki og segja okkur: Ef þið spilið þetta þá hættið þið að geta talað, einangrist og eigið enga vini. Þetta var sagt við alla sem voru að spila,  bæði við þá sem voru í kjallaranum að spila Counter Strike og þá sem voru með félögum sínum að spila FIFA eða Halo. Það fengu allir sömu rullu bæði frá kennurum og ættingjum. En raunin er bara allt önnur. Í dag spilar maður tölvuleiki með fólki. Þú ert tæknilega séð aldrei einn að spila tölvuleiki,“ segir Arnór.

„Þetta er mjög félagslegt. Maður er einn að spila leiki fyrir einn spilara (e. single player) en þegar það kemur nýr leikur út þá kaupa allir sama leikinn. Þannig að þótt maður sé að spila hann í sitthvoru lagi þá talar maður um leikinn við aðra.

Við töluðum um það í þessum þætti að þetta sem var sagt við okkur var ekkert satt. Raunin er mikið betri. Þetta er orðið mjög félagslegt og mun bara stækka. Þetta er félagsleg upplifun, bæði að geta spilað leiki einn og með öðrum,“ sagði hann.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist