Vilja Íslendinga til starfa með mjöldrunum

Tvö ný störf hafa nú verið auglýst í Sea Life …
Tvö ný störf hafa nú verið auglýst í Sea Life Trust, griðastað mjaldra í Vestmannaeyjum. Fyrirtækið hefur sérstakan áhuga á umsóknum frá Íslendingum. Hvalaþjálfarinn Kristín Viðja er einn þeirra Íslendinga sem starfar nú með mjöldrunum Litlu-Hvítu og Litlu-Gráu.

Sea Life Trust, griðastaður mjaldra í Vestmannaeyjum auglýsir nú tvö ný störf með mjöldrunum Litlu-Gráu og Litlu-Hvítu og fleiri dýrum í athvarfinu. Audrey Padgett framkvæmdastjóri Sea Life Trust segir í samtali við K100.is að fyrirtækið hafi sérstakan áhuga á að ráða áhugasama Íslendinga í störfin.

K100.is ræddi í júní síðastliðinn við Kristínu Viðju Harðardóttur, íslenskan hvalaþjálfara sem starfar í mjaldraathvarfinu en Padgett segir að fyrirtækið leiti nú að fleiri Íslendingum í líkingu við hana til starfa með hvölunum.

Yfirþjálfari og aðstoðarumsjónarmaður dýra

Auglýst er eftir störfunum tveimur á vefsíðu Sea Life Trust en lokadagur umsókna er 31. júlí. Er annars vegar um að ræða starf yfirþjálfara sem mun meðal annars aðstoða við þjálfun hvalanna og útbúa þjálfunar- og samskiptareglur til að tryggja aðlögun mjaldranna og velferð þeirra. Hinsvegar er auglýst eftir aðstoðarumsjónarmanni dýra sem mun bera ábyrgð á að veita dýrunum á mjaldrasetrinu ummönnun. Í því felst meðal annars undirbúningur matargjafa, umhirða og viðhald dvalarstaða dýra og stjórnun á atferlishegðun mjaldra, lunda og annarra dýra athvarfsins. 

Tveir heppnir einstaklingar geta fengið að vinna með mjöldrunum tveimur, …
Tveir heppnir einstaklingar geta fengið að vinna með mjöldrunum tveimur, Litlu-Hvítu og Litlu-gráu. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er bara best í heimi!“

Í viðtali K100.is við Kristínu Viðju í júní sagði hún frá starfi sínu og áhuga sínum á hvölum og öðrum dýrum. Sagði hún meðal annars að þetta væri það eina sem hún gæti hugsað sér að starfa við í lífinu. „Það er eig­in­lega bara fá­rán­legt að ég sé að fá borgað fyr­ir þetta því ég myndi gera þetta frítt,“ sagði Kristín í viðtalinu og bætti við: „Þetta er bara best í heimi!“

Minntist Kristín jafnframt á að Sea Life Trust stefndi að því að ráða fleiri Íslendinga til starfa í náinni framtíð enda vildi fyrirtækið að innfæddir tæku hægt og rólega við verkefninu. 

Greint hefur verið frá því að flutningi mjaldranna úr umönnunarlaug þeirra, sem er innanhúss, og á sérútbúið griðasvæði í Klettsvík hafi verið frestað vegna vægrar bakteríusýkingar.  Padgett segir hvalina þó vera við góða heilsu og býst við því að fá upplýsingar um nýja dagsetningu fyrir flutning þeirra fljótlega.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um störfin og sækja um þau á vefsíðu Sea Life Trust.

mbl.is

#taktubetrimyndir