„Get­um lifað fínu, eðli­legu lífi“ með veirunni

„En ég held að við séum að komast í þann …
„En ég held að við séum að komast í þann fasa að við þurfum að lifa með þessari veiru. Við þurfum að fara að breyta aðeins okkar háttum og venjum og passa okkur. Það er það sem við þurfum að lifa við á hverjum einasta degi. En ég held að við getum lifað fínu, eðlilegu lífi þannig,“ sagði sóttvarnalæknir í viðtali við Ísland vaknar í morgun. Samsett ljósmynd: mbl.is/Kristinn, mbl.is/Ómar

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir sagði í samtali við Ísland vaknar á K100 í morgun að ekki hafi verið gert ráð fyrir neinum ákveðnum fjölda smitaðra í skimunum á ferðamönnum en tilgangurinn með þeim hafi alltaf verið að öðlast vitneskju um það hversu mikil áhætta stafaði af þeim. Sagðist hann ekki vera þeirrar skoðunar að Ísland væri farið að sjá fyrir endann á faraldrinum en taldi þjóðina þurfa að lifa áfram með veirunni. Taldi hann jafnframt ólíklegt að von væri á bóluefni við veirunni í bráð þrátt fyrir fréttir um að þróun þess gangi vel. 

Þórólfur greindi frá því í gær að farþegar frá sex löndum, Noregi, Danmörku, Finnlandi og Þýskalandi muni frá 16. júlí ekki lengur þurfa að fara í skimun eða sóttkví við komu til landsins. Þá eru farþegar frá sex löndum sem sleppa við skimun en fyrrnefnd lönd bætast við Grænland og Færeyjar sem þegar hafa mátt koma til landsins án sýnatöku við landamærin.

Sagði Þórólfur í viðtalinu að skimanirnar hafi gefið góða þekkingu og reynslu af smitum hjá ferðamönnum en frá því 15. júní hefur verið skimað fyrir kórónuveirunni hjá um 30 þúsund manns af þeim 40 þúsund sem hafa komið til landsins á þessum tíma en af þeim hafa aðeins 12 reynst smitaðir. 

„Við gerðum bara ekki ráð fyrir neinu, við vissum þetta hreinlega ekki. Það veit enginn hvert smitið er hjá ferðamönnum og hvaða hópar eru að ferðast. Er þetta fólk sem endurspeglar sín heimalönd eða er þetta hrausta fólkið sem hefur ekki smitast eða er búið að smitast sem er að koma?“ sagði Þórólfur. „Þannig að þetta er vitneskja sem við höfum ekki hugmynd um. Þess vegna teljum við nauðsynlegt að fá þessa vitneskju til að geta stýrt þessum aðgerðum eins vel og hægt er til að halda veirunni frá Íslandi.“

„Þurfum að lifa með þessari veiru“

Aðspurður sagðist Þórólfur ekki halda að Ísland væri farið að sjá fyrir endann á faraldrinum.  „En ég held að við séum að komast í þann fasa að við þurfum að lifa með þessari veiru. Við þurfum að fara að breyta aðeins okkar háttum og venjum og passa okkur. Það er það sem við þurfum að lifa við á hverjum einasta degi. En ég held að við getum lifað fínu, eðlilegu lífi þannig,“ bætti hann við. „Ef við setjum bara ákveðinn strúktúr og reynum að forða því að veiran komi hingað til landsins og hegðum okkur almennilega innanlands og pössum upp á þessar sóttvarnarráðstafanir sem við erum alltaf að hamra á og erum ekki að safnast of mikið saman. Þá komumst við í gegnum þetta. En það getur tekið nokkra mánuði eða ár að hverfa úr okkar lífi,“ sagði Þórólfur.

Enn einhver bið eftir bóluefni

Kveðst hann jafnframt ekki vera bjartsýnn að von sé á einhvers konar bóluefni við veirunni í bráð þrátt fyrir fréttir um að þróun á slíku efni gangi vel. 

„Menn eru alltaf að tala um mótefni og bóluefni en ég held að það sé einhver bið eftir því,“ sagði sóttvarnalæknir.

Hlustaðu á allt viðtalið við sóttvarnalækni í spilaranum hér að neðan.mbl.is

Bloggað um fréttina

Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir