Heimsmeistari sippar við lag Daða

Tori Boggs er nífaldur heimsmeistari í sippi og gerir ýmsar …
Tori Boggs er nífaldur heimsmeistari í sippi og gerir ýmsar magnaðar æfingar með sippubandi við eurovisionlag Daða sem hún kveðst vera mikill aðdáandi af.

Tori Boggs, nífaldur heimsmeistari í sippi, sippar við eurovisionlag Daða og gagnamagnsins í myndbandi sem hún deilir á instagramsíðu sinni. Segist hún þar vera með lagið á heilanum og kveðst gefa því sín „12 stig“. Myndbandið, sem birt var í gær, hefur vakið töluverða athygli en þegar hafa 90 þúsund manns horft á það.

Samkvæmt fréttatilkynningu sem barst K100.is kom Boggs sem ferðamaður til Íslands árið 2013 og heillaðist af landi og þjóð en í færslunni á Instagram segist hún vonast til að heimsækja landið aftur fljótlega. Segir í tilkynningunni að hana langi mikið að koma hingað til lands og halda námskeið í sippi.

Fylgjendafjöldi Boggs á Instagram hefur vaxið gríðarlega í kórónuveirufaraldrinum en hún hefur verið virk í að deila myndböndum af sér að gera flóknar kúnstir með sippubandi á miðlinum á sama tíma og áhugi fólks á sippi virðist hafa aukist við það að hafa þurft að vera meira heima. Nú fylgja henni fleiri en 80 þúsund manns á Instagram.

Myndbandið má sjá í spilaranum hér að neðan.

mbl.is