Jaja Ding Dong-barinn slær strax í gegn

Örlygur Hnefill Örlygsson segir nýja barinn Ja Ja Ding Dong, …
Örlygur Hnefill Örlygsson segir nýja barinn Ja Ja Ding Dong, sem opnaður var á Húsavík um helgina ganga ótrúlega vel. Gestir á barnum færðu honum og Leonardo Piccione veitingamanni boli merkta staðnum í gær. Með þeim á myndinni er Ylva dóttir Örlygs. Ljósmyndir/aðsendar

Barinn Jaja Ding Dong, sem opnaði á Húsavík laugardag, hefur heldur betur slegið í gegn á fyrstu tveimur dögunum samkvæmt Örlygi Hnefli Örlygssyni eiganda barsins og hótelstjóra Cape hotel á Húsavík. Barinn er svokallaður útibar og er því háður veðri og lagði Örlygur upp með að hafa barinn aðeins opinn „þegar sólin skín“.

Vegna vinsælda barsins, sem nefndur er eftir lagi úr Eurovisionmynd Wills Ferrels, hefur þó aðeins verið sveigt frá fyrrnefndri reglu en barinn var til að mynda opinn í gær, á sunnudag, þrátt fyrir rigningu. 

„Þetta vakti svo mikla lukku að við ákváðum í gær að opna bara í rigningunni af því að það voru svo margir sem spurðu. Svo vorum við að þjónusta í bleytunni og það var allt í lagi. Við lögðum nú upp með að þetta yrði bara opið þegar sólin skín,“ segir Örlygur í samtali við K100.is. 

„Satt að segja erum við mjög heppin með veður hér á Húsavík yfir sumarvertíðina svo ég hef engar áhyggjur að það verði skortur á þeim dögum,“ bætir hann við. 

Eins og áramótaskaupið fyrir Húsvíkinga

Örlygur segir að lagið Ja Ja Ding Dong hafi verið spilað um það bil fimm til sex sinnum á dag síðan staðurinn opnaði og staðfestir að það sé oft á dag sem einhver öskrar „Play Ja Ja Ding Dong,“ líkt og persónan Olaf Yohansson, sem leikin er af Hannesi Óla Ágústssyni í myndinni, er þekkt fyrir að gera.

„Þá bara skellum við því á fóninn, það er ekkert mál. Við höfum gaman að þessu lagi svo við kvörtum ekki. Við erum eiginlega að verða eins og fólkið í myndinni,“ segir Örlygur kíminn. „Við erum öll svo ánægð með þessa mynd. Þetta var bara eins og að fá áramótaskaupið um mitt sumar.“

Unnið er að því að gera eftirlíkingu af álfahúsinu sem …
Unnið er að því að gera eftirlíkingu af álfahúsinu sem kemur fram í eurovisionmyndin Wills Ferrels en Örlygur segir þá erlendu ferðamenn sem hafi heimsótt staðinn vera sérstaklega áhugasamir um húsið. Atriðin með álfahúsinu eru tekin upp í Skotlandi og því ekkert sambærilegt álfahús að finna á Húsavík enn. Skjáskot

„Möst“ að hafa álfahús

Örlygur segir að honum hafi komið skemmtilega á óvart hversu mikið sé að gera á bæði á hótelinu og barnum þetta sumarið en hann kveðst hafa haldið að hann væri að fara inn í „rólegt sumar“ vegna kórónuveirunnar sem hafi verið ein ástæðan fyrir því að hann ákvað að stofna nýja barinn. 

„Núna er bara fullt alla daga. Ég hélt að við yrðum að bíða eftir gestum í allt sumar en þeir eru bara allir komnir. Svo erum við að fá gesti af hótelinu sem eru að koma út á barinn og svo er það „lókal“ fólkið á Húsavík. Þannig að það rættist vel úr sumrinu.“ 

Segir Örlygur að langflestir ferðamenn sem heimsæki bæði barinn og hótelið séu Íslendingar að ferðast innanlands. „En við sjáum að með þá örfáu útlendinga sem eru að koma til okkar að þeir eru greinilega búnir að horfa á myndina. Þeir eru að mynda sig við skiltið sem segir „Jaja Ding Dong“ og spyrja okkur hvar álfahúsið úr myndinni er og hitt og þetta,“ segir Örlygur og bætir við að nú sé verið að smíða eftirlíkingu af álfahúsinu, sem spilar stórt hlutverk í eurovisionmyndinni, og mun það vera aðgengilegt í nágrenni við barinn. Atriðin með álfahúsinu í myndinni, sem áttu að gerast á Húsavík, voru að sögn Örlygs tekin upp í Skotlandi. 

Ýmislegt er á boðstólnum á JaJa Ding Dong-barnum en þar …
Ýmislegt er á boðstólnum á JaJa Ding Dong-barnum en þar er meðal annars hægt að fá sérstaka Jaja-vöfflur. Double Trouble-kokteill sem heitir eftir eurovisionlaginu úr mynd Ferrells verður á boðstólnum frá og með næstu helgi.

„Við áttuðum okkur á því strax á degi eitt að þetta er algjört „möst“. Það spyrja allir hvar álfahúsið er,“ segir hann. 

Ýmislegt er á boðstólnum á Jaja Ding Dong-barnum en meðal annars er hægt að fá JaJa-vöfflur. Örlygur segir að verið sé að vinna að sérstökum Double Trouble-kokteil sem heiti eftir eurovisionlaginu sem persónur Ferrels og Rachel McAdams flytja í myndinni. Verður kokteillinn að sögn „frumsýndur“ næstu helgi og vill Örlygur ekki gefa upp of mikið um drykkinn.

„Við viljum að Double Trouble sé alveg akkúrat réttur,“ segir hann.

mbl.is