Féll í yfirlið fyrir framan Karl Bretaprins

Karl Bretaprins horfði áhyggjufullur á þegar hópur fólks umkringdi starfsmann …
Karl Bretaprins horfði áhyggjufullur á þegar hópur fólks umkringdi starfsmann matvöruverslunar sem hann gaf sig á tal við sem féll í yfirlið. Skjáskot úr myndskeiði

Starfsmaður bresku matvöruverslunarinnar Asda féll í yfirlið í miðju samtali við við Karl Bretaprins eftir að prinsinn gaf sig á tal við hann fyrir helgi. Olli atvikið nokkru uppnámi og flykktist fólk í kringum manninn til að aðstoða hann en hann reis fljótlega á fætur aftur og virtist í góðu lagi stuttu eftir að hafa fallið í jörðina.

Karl fór ásamt hertogaynjunni Camillu og heimsótti matvöruverslunina Asda síðastliðinn fimmtudag til að þakka versluninni og starfsfólki þess fyrir framtak sitt og aukna þjónustu á kórónuveirutímum. Greint er frá þessu á breska fréttavefnum RT. 

Í myndbandi af atvikinu sést hvar Karl gefur sig á tal við manninn sem verður skyndilega valtur á fæti þar til það líður yfir hann og hann fellur aftur fyrir sig á jörðina. Karl er fljótur að teygja sig í átt að manninum til að reyna að styðja við hann en fjöldi fólks kemur manninum strax til hjálpar og virðist bregðast hárrétt við aðstæðunum á meðan Karl fylgist áhyggjufullur með. 

Maðurinn stendur þó fljótt upp aftur og nær að klára samtalið við prinsinn eftir að hafa bersýnilega jafnað sig. 

Hægt er að sjá myndbandið af atvikinu í spilaranum hér að neðan.

mbl.is