Breiðfjörð úr Breiðafirði syngur um Breiðafjörð

Biggi Breiðfjörð syngur um það að hann myndi synda yfir …
Biggi Breiðfjörð syngur um það að hann myndi synda yfir Breiðafjörð fyrir ástina sína í nýjasta lagi sínu Yfir Breiðafjörð. Samsett ljósmynd: Ómar Óskarsson

Tónlistarmaðurinn Birgir Breiðfjörð, eða Biggi eins og hann er kallaður, gaf út glænýtt lag á dögunum, rómantísku stuttskífuna Yfir Breiðafjörð. Segir hann að lagið hafi komið til hans í samkomubanninu en það hafi legið vel við að syngja um Breiðafjörðinn enda heiti hann Breiðfjörð og er ættaður úr Breiðafirði.

„Þannig að þetta átti vel við,“ sagði Birgir í samtali við morgunþáttinn Ísland vaknar á K100 þar sem hann ræddi um nýja lagið og komandi verkefni. Lagið er afar rómantískt og sagði Birgir að hann kynni vel við sig í rómantíkinni en hann segir að setningin „Ég myndi synda yfir Breiðafjörð yfir þig“, sem hljómar í laginu, hafi komið til hans í dagdraumi á hápunkti kórónuveirufaraldurs.

Hann staðfestir að það sé von á smáskífu frá honum fljótlega eftir áramót en hann stefnir á að gefa út aðra stuttskífu í haust. 

 Hlusta má á lagið í spilaranum hér að neðan en einnig má heyra það á Spotify undir nafninu Biggi Breiðfjörð.

Hlustaðu á allt viðtalið við Birgi Breiðfjörð í Ísland vaknar í spilaranum hér að neðan.

mbl.is