„Okkur vantar fleiri stráka“

„Okkur langar að sýna hvað þetta er í alvörunni. Ekki …
„Okkur langar að sýna hvað þetta er í alvörunni. Ekki hvað fólk heldur að það sé,“ sagði Guðmundur landsliðsmaður í fimleikum á K100 en hann mun taka þátt í sýningarferð karlalandsliðsins um landið sem hefst 22. júlí næstkomandi. Skjáskot úr myndskeiðum

„Þetta er gert til að efla til frekari þátttöku drengja í fimleikum á Íslandi. Af því að það vantar. Okkur vantar fleiri stráka í fimleika,“ segir Guðmundur Kári Þorgrímsson um verkefnið Fimleikahringnum 2020 í samtali við Ísland vaknar í gær en hann er sjálfur í íslenska karlalandsliðinu í fimleikum.

Er um að ræða tíu daga sýningarferð karlalandsliðsins í kringum Ísland dagana 22.-31. júlí. Mun liðið koma við á Akranesi, Stykkishólmi, Hvammstanga, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Höfn og á Selfossi og vera með sýningu á hverjum stað en öllum börnum og unglingum boðið á æfingu eftir hverja sýningu.

„Okkur langar að sýna hvað þetta er í alvörunni. Ekki hvað fólk heldur að það sé,“ sagði Guðmundur. 

Mikil hugarleikfimi

Segir hann fimleika vera góðan grunn fyrir hvaða hreyfingu sem er en íþróttin reynir bæði á úthald, styrk og á minni og stærri vöðvahópa.

„Þetta er mjög mikil hugarleikfimi að vita hvar maður er í loftinu. Maður er kannski að gera þrefaldar skrúfur eða þrefalt heljarstökk. Maður þarf að vita nákvæmlega hvar maður er til að vita: Já, ég er að lenda á fótunum núna,“ útskýrði Guðmundur og bætti við að stundum færu æfingarnar ekki alveg eftir plani: „Stundum lendir maður á hausnum og þá þarf að vita að maður lendir á hausnum.“

Hægt er að fylgjast með íslenska karlalandsliðinu í fimleikum á facebooksíðunni „Fimleikar fyrir stráka“ og á instagramsíðu undir sama nafni þar deilir landsliðið meðal annars skemmtilegum færslum og myndböndum. Eitt slíkt myndband sýnir meðal annars brot úr sýningu landsliðsins og annað sýnir skemmtilegt samansafn misheppnaðra æfinga eða „Fails“ en þau má sjá hér að neðan. 

 Hlustaðu á allt spjallið við Guðmund Kára í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is