„Var með mikla fordóma gagnvart þessari tónlist“

Haraldur Jónasson/Hari

Tónlistarkonan Bríet sem hefur sannarlega slegið meðal landsmanna á síðustu árum segist vera að vinna að nýrri plötu sem er væntanleg í september. Segir hún að platan muni bera keim af „country“-tónlist, tónlistarstefnu sem hún kveðst heilluð af en hafði mikla fordóma fyrir áður fyrr.

„Þetta er ótrúlega falleg tónlist og ég var með mikla fordóma gagnvart þessari tónlist fyrst. Ég var bara: „country“? Ertu að djóka? Fannst þetta bara vera eitthvað jóðl. En það er svo margt Country án þess að maður viti af því,“ sagði Bríet í Ísland vaknar á K100 í gærmorgun. „Það er einmitt að koma svona „country-flavor“ bráðum af tónlist,“ bætti hún lymskulega við, hló og viðurkenndi að ný plata væri væntanleg í september næstkomandi.

Bríet var hress í viðtali við Ísland vaknar í gærmorgun.
Bríet var hress í viðtali við Ísland vaknar í gærmorgun. Skjáskot úr myndskeiði

Þegar talið barst að tónlistarsköpun Bríetar sagðist hún alltaf semja tónlist út frá tilfinningalífi sínu. Lagið Esjan, sem meðal annars hefur verið á Topp tíu lista Tónlistans á K100 samfleytt í margar vikur er að hennar sögn engin undantekning. Kvaðst hún þó ekki vilja útskýra söguna á bakvið lagið, sem hún segir að sé ástarsorgarsaga, þar sem hún vildi hún ekki hafa áhrif á túlkun hlustenda á laginu.

„Það er svo erfitt þegar maður gerir það því þá er ég að láta þér líða einhver veginn. Þér á að líða svona af því að ég er að semja þetta. Ég vil eiginlega ekki gera það,“ sagði Bríet.

Sagði hún aðeins eina undartekningu vera á lögunum hennar en lagið Day drinking sem hún samdi þegar hún var að sögn „18 ára að flippa í einhverri kirkju.“

„Ég á mjög erfitt með það. Ég drekk ekki einu sinni. Það er eina lagið sem mér finnst erfitt að hlusta á því það er ekki ég. Það er ekki að koma beint frá hjartanu á mér,“ sagði hún.

Bríet hefur nóg fyrir stafni en hún er meðal annars að fara að halda tvenna tónleika á Kaffi Flóru 17. júlí næstkomandi en hægt er að nálgast miða á tónleikana á Tix.is. 

Hlustaðu á allt viðtalið við Bríeti í Ísland vaknar í spilaranum hér að neðan.

mbl.is