Fara í gegnum fleiri tonn frá „Ali frænda“

„Þetta eru sendingar sem hafa safnast upp og svo er …
„Þetta eru sendingar sem hafa safnast upp og svo er sent gríðarlega mikið magn í einu,“ segir Brynjar Smári Rúnarsson, talsmaður Íslandspósts um fimm tonna sendingu frá Kína sem var að berast fyrirtækinu eftir seinkanir vegna kórónuveirufaraldurs. Starfsmenn vinna nú hörðum að fara í gegnum sendingarnar en stór hluti þeirra eru pantanir frá kínversku netversluninni Ali Express. Samsett ljósmynd/Aðsend mbl.is/Hari

Starfsmenn Íslandspósts vinna nú hörðum höndum að því að fara í gegnum fimm tonna sendingu sem var að berast frá Kína. Kórónuveirufaraldur í heiminum hefur valdið miklum seinkunum á póstsendingum og hafa því margra mánaða gamlar sendingar safnast upp og berast póstinum í mun stærri skömmtum en venjulega. 

Brynjar Smári Rúnarsson, talsmaður Íslandspósts, segir þetta eina af nokkrum slíkum risasendingum sem hafa borist í einu en Íslandspóstur býst að minnsta kosti við einni sendingu af svipaðri stærðargráðu í viðbót. Staðfestir hann að margir bíði með óþreyju eftir sendingunum sínum og vonast til að flestir geti fengið sendingar sínar sem fyrst.

„Þetta eru sendingar sem hafa safnast upp og svo er sent gríðarlega mikið magn í einu,“ segir Brynjar í samtali við K100.is en hann segist ekki geta sagt til um fjölda pakka í sendingunni en giskar á að þeir skipti tugum þúsunda. Hann staðfestir að stærstur hluti sendinganna frá Kína séu pantanir frá kínversku netversluninni Ali Express sem hefur verið vinsæl meðal Íslendinga og gengur stundum undir nafninu „Ali frændi“ hérlendis.

Að minnsta kosti einn „risaskammtur“ væntanlegur í viðbót

„Þetta er gríðarlegt magn af litlum sendingum og eðlilega tekur smá tíma að vinna þetta. Við erum að gera okkar besta að vinna þetta eins hratt og við getum,“ segir hann.

Hann segir að Íslandspóstur búist nú við að minnsta kosti einum „risaskammti“ af sendingum frá Kína í viðbót en segir að annars séu sendingarnar að komast í eðlilegt horf á ný en pakkar eru nú farnir að berast flugleiðis í meira mæli en síðastliðna mánuði.

„Þó að þetta sé ekki orðið 100% þá er þetta að allt að verða eðlilegra,“ segir hann.


 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir