Hamstra töflur sem minna á bláan Opal

Íslendingar sakna margir bláa Opalsins en sett hefur verið af …
Íslendingar sakna margir bláa Opalsins en sett hefur verið af stað undirskriftasöfnun fyrir því að fá leyfi stjórnvalda til að framleiða einn skammt í viðbót af töflunum sem innihalda ólöglegt bragðefni. Nóa-töflur, ein af tímabundnum afmælisvörum Nóa Síríus þykja þó minna á gamla Opalinn og hafa margir sælgætisunnendur tekið upp á því að hamstra töflurnar sem voru aðeins framleiddar í takmörkuðu upplagi. Samsett Ljósmynd/Sigrún Sigmarsdóttir, Bryndís Guðfinnsdóttir

Söknuður Íslendinga á hinum fræga bláa Opal frá Nóa Síríus virðist ekki ætla að dvína ef marka má þann áhuga sem sælgætinu, sem hætti í framleiðslu árið 2005, hefur verið sýndur. Nói Síríus hefur sett af stað undirskriftasöfnun fyrir landsmenn til að skora á stjórnvöld að leyfa framleiðslu á einum framleiðsluskammt í viðbót af sælgætinu en markaðsstjóri fyrirtækisins, Silja Mist Sigurkarlsdóttir, segir söfnun undirskriftanna ganga vel.

Staðfestir hún jafnframt að bláar Nóa-töflur, tímabundið sælgæti sem gefið var út í tilefni af aldarafmæli Nóa Síríus, sem sælgætisunnendur hafa hamstrað upp á síðkastið, beri keim af hinum fræga Opal. 

Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Nóa Síríus.
Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Nóa Síríus. Kristinn Magnússon

Hægt er að skrifa undir undirskriftalistann um framleiðslu á bláum Opal á sýningu Nóa Síríus í tilefni af 100 ára afmælis fyrirtækisins sem var opnuð á Árbæjarsafni fyrir helgi en þar er að finna nokkurs konar musteri blás Opals en einnig er hægt að skrifa undir listann á netinu á vef blás Opals.

„Við erum búin að fá mikið af áskorunum um að framleiða aftur bláan Opal en eins og fjölmargir vita þá er það því miður bannað,“ segir Silja í samtali við K100.is. „Við getum því með engu móti orðið við þessum áskorunum nema með leyfi frá stjórnvöldum. Þetta er því tilraun til þess að láta á þetta reyna með því að safna undirskriftum og sjá hvernig það kemur okkur,“ segir hún.

Silja staðfestir að þegar hafi fyrirtækinu borist fjöldi fyrirspurna um það hvort einhver svör hafi fengist um málið frá stjórnvöldum en hún segir svo ekki vera enda stutt síðan sýningin var opnuð og undirskriftasöfnunin var sett af stað.

Spurð út í það hvort fyrirtækið telji líklegt að leyfi verði gefið fyrir framleiðslu á bláum Opal segir hún: „Við náttúrulega vonum það. Við ætlum bara að sjá til og leyfa sumrinu að klárast og sjá hvað gerist. Með nægum þrýstingi getur þetta náttúrulega orðið að veruleika svo auðvitað vonum við það. Það væri ótrúlega gaman að fá að gera síðasta skammtinn af bláum Opal aftur. Bara svona fyrir „old times sake“.

Minnir á bláan Opal

Meðlimir í Nammitips!-facebookhópnum deila nú sín á milli staðsetningum þar …
Meðlimir í Nammitips!-facebookhópnum deila nú sín á milli staðsetningum þar sem enn er hægt að fá Nóa-töflurnar sem þykja minna á bláa Opalinn og hafa sumir tekið upp á því að fylla körfur og poka af töflunum sem ólíklegt er að verði framleiddar aftur. Ljósmynd/Sigrún Sigmarsdóttir, Bryndís Guðfinnsdóttir

Stutt er þó síðan Nói Síríus bauð upp á sérstakar afmælisvörur í takmörkuðu magni í tilefni aldarafmælisins en meðal þeirra voru svokallaðar Nóa-töflur með icemint bragði í bláum pakkningum. Þá hafa margir sælgætisunnendur, til dæmis inni á aðdáendahópnum Nammitips! á Facebook, sagt bláan Nóa minna á margan hátt á gamla bláa Opalinn. Hafa margir tekið upp á því að hamstra bláan Nóa í verslunum eftir að staðfest var að hann hafi aðeins verið framleiddur í einum skammti.

„Þetta var bara þetta eina skot. Svona nostalgíu Opal,“ segir Silja sem staðfestir að fyrirtækið hafi verið meðvitað um að töflurnar gætu minnt á bláan Opal. „Það er þetta icemint bragðefni sem minnir á og var í bláum Opal en það vantar þennan herslumun til þess að rétta bragðið af bláa Opalnum komi fram,“ segir hún. „En þú getur fundið keim, við viðurkennum það alveg en við komumst auðvitað ekki alla leið út af þessum boðum og bönnum.“

„Ruglað gott“

Aðspurð segist hún ekki vita til þess að meira verði framleitt af bláum Nóa en útilokar ekki að fyrirtækið muni skoða það. „Við erum allavega ekki komin þangað. Við erum bara með svo mikið í gangi og margar nýungar,“ segir Silja og vísar meðal annars í glænýtt súkkulaðistykki sem kom á markað í gær, súkkulaði með salkringlum og sjávarsalti.

„Þetta er bara eitt besta súkkulaði sem við höfum smakkað. Þetta er ruglað gott,“ segir Silja en hún bendir á að meðlimir Nammitips!-Facebookhópsins sem smökkuðu súkkulaðið í beinni útsendingu hafi gefið súkkulaðinu hæstu einkunn. „Þannig að þetta hefur fengið góðar viðtökur hjá þeim sem hafa smakkað.“

mbl.is

#taktubetrimyndir