Ekki um þunglyndi og engin óþarfa nekt

Skjáskot úr stiklu

„Þetta er íslensk mynd en ég vil samt taka það fram að hún er ekki um þunglyndi, það er engin óþarfa nekt. Það er enginn hestur að hlaupa um í fjöru og það er enginn í þunglyndiskasti á sveitabæ einhvers staðar. Þetta er bara gaman,“ sagði Þórhallur Þórhallsson í morgunþættinum Ísland vaknar en hann mætti í þáttinn í vikunni ásamt Sonju Rut Valdin en þau leika aðalhlutverkin í nýju íslensku grínmyndinni Mentor. 

Kvikmyndin, sem var sú fyrsta sem frumsýnd var á Íslandi eftir að samkomubanni lauk, fjallar í stuttu máli um uppistand. Sonja leikur hina 17 ára gömlu Betu, sem skráir sig í uppistandskeppni þrátt fyrir að hafa enga reynslu í bransanum. Hún biður því uppistandarann Húgó, sem leikinn er af Þórhalli, sem vann sömu keppni nokkrum árum áður, að kenna sér að vera fyndin.

Þórhallur sem sjálfur hefur unnið uppistandskeppnina Fyndnasti maður Íslands segir að mikið hafi verið grínast með það að hann líkist sinni persónu mjög. „Þessi er nú aðeins skrítnari en ég. Ekki mikið en aðeins,“ sagði Þórhallur kíminn.

Hægt er að sjá grínmyndina Mentor í Smárabíói en stiklu úr kvikmyndinni má sjá hér að neðan.

Hlustaðu á allt viðtalið við Sonju og Þórhall í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is