Nýjustu ráð Íslendinga gegn lúsmýi

Fáum líkar þessi gestur og margir leita nú ráða gegn …
Fáum líkar þessi gestur og margir leita nú ráða gegn flugunni og óþægindunum sem fylgir bitum hennar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Upp á síðkastið hefur facebookhópurinn „Lúsmý á Íslandi“ vaknað úr hálfgerðum dvala eftir að lúsmýið illvíga fór aftur á kreik en hópurinn var stofnaður síðasta sumar þegar lúsmýið lét til skarar skríða gegn fólki. Ráð gegn flugunni óvinsælu rigna inn á hópinn enda vilja flestir komast hjá óþægindunum sem fylgja því að vera bitinn.

Um 4.000 meðlimir eru í hópnum þar sem fólk deilir bæði reynslusögum af bitum og úrræðum við þeim. Ýmis ný og gömul ráð gegn flugunni skæðu eru að finna í hópnum en K100 tók saman nokkur nýjustu ráðin sem Íslendingar hafa deilt á „Lúsmý á Íslandi“ bæði sem eiga að koma í veg fyrir bit mýsins og minnka kláðann og óþægindin sem fylgja bitunum. Tekið skal fram að hér er að að ræða ráðleggingar almennings en ekki læknisfræðileg ráð.

Sjóðandi heit skeið á bit

Kona nokkur í hópnum kveðst í færslu á facebookhópnum hafa prófað að hita skeið og setja beint á bit lúsmýsins en það segir hún að hafi virkað það vel að hún finni ekki lengur fyrir bitinu. Hafði hún að sögn heyrt að það að hita skeið upp í 42 gráður ætti að brjóta niður eitur flugunnar. Hún tekur þó fram að hún viti ekki hvort sannleikur sé að baki þessari ráðleggingu sem hafi þó virkað vel á þetta eina bit. Fleiri meðlimir hafa þegar sett athugasemdir við færsluna og taka margir undir virkni ráðsins og segjast finna lítið fyrir bitunum eftir að heit skeið var lögð á þau.

Teresia-gardínur úr Ikea

Einn hugmyndaríkur meðlimur ákvað að setja Teresia-gardínur úr Ikea fyrir alla opnanlega glugga í húsi sínu með límbandi. Sagði hún dásamlegt að geta haft opna glugga á næturnar. Nokkrir ákváðu að fara að ráðum hennar og tóku undir að gardínurnar virkuðu vel til að halda burtu lúsmýinu. Einn meðlimur þakkaði sérstaklega fyrir ráðið og sagði fjölskylduna hafi sofið „eins og englar“ um nóttina.

Smidge-sprey

Einn meðlimur hópsins, sem kveðst hafa verið „aðalrétturinn“ hjá lúsmýinu upp á síðkastið, segist hafa fundið lausn gegn bitum með því að bera svokallaðan Smidge-sprey, sem hann keypti í apóteki, á allan líkamann á hverjum degi. Segist hann ekki hafa fengið bit síðan hann byrjaði á þessu. Fleiri færslur hafa verið gerðar um umrætt sprey og taka margir undir það að spreyið virki vel gegn mýinu.

Sterakrem á bit

Einn meðlimur hópsins segir sterakrem virka best á bit lúsmýsins en aðilinn segir, í færslu í hópnum, vera með bit á öllum líkamanum eftir fluguna, einnig á augnlokum og á eyrum. Segist hann vera búinn að prófa að kæla bitin, taka sterk ofnæmislyf, kláðastillandi krem og svokallað Afterbite en að sterakrem sé það eina sem hafi virkað til að hann nái að sofa í að minnsta kosti í 15 mínútur í senn.

Sprey úr ilmkjarnaolíum

Einhverjum þótti lavenderolíusprey virka gegn lúsmýinu og deildi uppskrift af spreyinu inn á hópinn. Er ráðið þá að blanda 25-30 dropum af lavenderolíu í 50 ml. af vatni og er hægt er að bæta við sítrónugrasi í spreyið. Á viðkomandi svo að úða spreyinu á húð tvisvar sinnum á dag, bæði fyrripart dags og seinnipart. Mælir einstaklingurinn með því að spreyja á sængina fyrir háttatímann. Einnig mælir hann með að setja lavenderolíu beint á bitið sem hann segir að hreinsi það og dragi út kláða og sviða. 

Annar meðlimur hafði bætt Teatree olíu í svipað heimagert sprey og sagði blönduna hafa virkað vel og fullyrti að ekki hafi borið á „kvikindinu“ eftir að hún fór að spreyja blöndunni á glugga, á föt og í hárið.

mbl.is