Fylgjast með magakveisu mjaldranna

„Við viljum vera alveg viss um að þær [Litla-Grá og …
„Við viljum vera alveg viss um að þær [Litla-Grá og Litla-Hvít] séu heilsuhraustar og tilbúnar í ferðalagið. Við munum endurskipuleggja flutning þeirra í Klettsvík um leið og við fáum þetta græna ljós frá dýralæknateyminu okkar,“ segir Audrey Padgett framkvæmdastjóri Sea Life Trust í Vestmannaeyjum. Ljósmyndir/Sea Life Trust

Flutningi mjaldranna Litlu-Grárrar og Litlu-Hvítrar í griðasvæði þeirra í Klettsvík hefur verið frestað, að minnsta kosti í nokkrar vikur, vegna vægrar bakteríusýkingar í maga hvalanna en til stóð að mjaldrarnir yrðu færðir í griðasvæðið í síðustu viku. Þetta staðfestir Audrey Padgett framkvæmdastjóri Sea Life Trust í Vestmannaeyjum í samtali við K100.is.

Tveir sérhæfðir dýralæknar frá Sea Life Trust, sem komu sérstaklega til landsins til að framkvæma heilsufarsskoðun á dýrunum, greindu bakteríusýkinguna á dögunum. Litla-Grá og Litla-Hvít eru því í sýklalyfjameðferð eins og stendur en ástand þeirra verður endurmetið þegar henni er lokið. 

Audrey Padgett framkvæmdastjóri Sea Life Trust.
Audrey Padgett framkvæmdastjóri Sea Life Trust. Ljósmynd/SeaLifeTrust

„Við bíðum bara eftir upplýsingum frá dýralæknunum um það hvenær meðferð þeirra er lokið. Við viljum vera alveg viss um að þær séu heilsuhraustar og tilbúnar í ferðalagið. Við munum endurskipuleggja flutning þeirra í Klettsvík um leið og við fáum þetta græna ljós frá dýralæknateyminu okkar,“ segir Audrey. 

Segir hún að Litla-Grá og Litla-Hvít séu í góðu lagi og líði vel og staðfestir að hvalateyminu hafi borist fjölda fyrirspurna um líðan mjaldranna í gegnum samfélagsmiðla en dýraunnendur víða um heim fylgjast grannt með dýrunum.

Vilja ekki trufla meðferðina

„Þetta er bara eins og þegar ég eða þú verðum veik og þurfum að fara á sýklalyf. Þú vilt ekki trufla meðferðina. Ef við færum að flytja þær núna gætum við verið að trufla hana auk þess sem við ættum erfiðara með að fylgjast með heilsufari þeirra í kvínni,“ segir Audrey. „Við viljum bara nota allan þann tíma sem við þurfum til að vera viss um að þær hafi fengið tækifæri til að taka lyfin sín og verða heilsuhraustar.

Við munum láta vita um leið og við vitum hvenær þær [Litla-Grá og Litla-Hvít] verða fluttar,“ segir Audrey.

Gestastofa Sea Life Trust, þar sem hægt er að sjá mjaldrana í ummönnunarlaug sinni áður en þeir verða fluttir í Klettsvík er að sögn Audrey opin alla daga en þar er einnig hægt að sjá fleiri dýr, bæði fiska og fugla, en meðal annars eru þar nokkrir lundar sem þarfnast aðhlynningar og geta ekki lifað úti í náttúrunni.

Hægt er að fylgjast með mjaldrafrænkunum á Facebooksíðu hvalaathvarfs Sea Life Trust en Audrey deildi á dögunum uppfærslu á líðan mjaldranna í myndbandi á síðunni.

mbl.is

#taktubetrimyndir