Lifði af ferð í þvottavélina

Kötturinn Oscar má teljast heppinn að hafa lifað af 12 …
Kötturinn Oscar má teljast heppinn að hafa lifað af 12 mínútur í þvottavél en eigandi hans telur hann hafa notað að minnsta kosti þrjú af sínum níu kattarlífum. Myndir eru úr safni. Ljósmynd/Unsplash

Oscar, tveggja ára gamall Búrmaköttur, hefur líklega notað nokkur af sínum níu lífum þegar hann lifði af 12 mínútna ferð í þvottavél eiganda síns.

Amanda Meredith, eigandi Oscars, sem búsett er í Ástralíu, segist í samtali við ABC News hafa heyrt undarlegt mjálm koma út úr þvottahúsinu. Kveðst hún ekki hafa gert sér grein fyrir því strax að kötturinn væri inni í vélinni. Þegar mjálmið hélt áfram ákvað hún þó að kanna málið betur og komst þá að því hvaðan hljóðið kom.

„Aumingja litli kötturinn var með loppurnar á glerinu á meðan hann snerist og horfði á mig,“ sagði Meredith. „Þetta var hörmulegt.“

Segir hún að það hafi tekið um tvær mínútur að slökkva á vélinni og ná kettinum út. Meredith hringdi strax í dýralækni, sem varaði hana við því að tvísýnt væri hvort Oscar myndi lifa óhappið af.

Með „einstaklega mjúkan“ feld eftir þvottinn

Oscar kom þó lifandi úr vélinni þrátt fyrir að hann væri nokkuð lemstraður. Kötturinn fékk að sögn viðeigandi meðferð hjá dýralækni. Þar var hann lagður inn í sólarhring áður en hann fékk að fara heim þar sem hann svaf að sögn Meredith í sjö heila daga. 

Eftir það var kötturinn að sögn Meredith sjálfum sér líkur og með „einstaklega mjúkan“ feld eftir þvottinn. Hún kveðst giska á að Oscar, sem er greinilega uppátækjasamur köttur, sé nú þegar búinn með að minnsta kosti þrjú af sínum níu lífum. 

Þrátt fyrir að Meredith geti hlegið að atvikinu eftir á segir hún að upplifunin að finna köttinn í vélinni hafi verið hræðileg.

„Þessar tvær mínútur sem ég þurfti að bíða [eftir því að hægt væri að opna vélina] voru skelfilegar,“ segir hún.

Dýralæknir Oscars varar kattaeigendur við því að kettir séu gjarnir á að leita í þvottavélar og þurrkara sem þeim finnist oft ákjósanlegir svefnstaðir. Mælir hann með því að eigendur katta skoði alltaf vélarnar áður en þær eru settar af stað. 

„Hann [Oscar] er mjög heppinn en sterkur lítill karl. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona gerist,“ segir læknirinn.

mbl.is