Íslenskur prestur slær í gegn á TikTok

Ungur íslenskur prestur hefur vakið töluverða athygli á TikTok upp …
Ungur íslenskur prestur hefur vakið töluverða athygli á TikTok upp á síðkastið en hann dansar meðal annars við vinsæla lagið „Ja Ja Ding Dong“ í messuklæðum og signir sig í takt við lagið vinsæla. Skjáskot af TikTok

Presturinn sr. Sindri Geir Óskarsson, sem er sóknarprestur í Glerárkirkju á Akureyri, hefur vakið töluverða athygli á TikTok upp á síðkastið en á aðgangi sínum þar deilir Sindri ýmsum vangaveltum um trúmál ásamt því að taka sporin í  messuklæðum. Lýsir hann sjálfum sér sem „millennial“ eða einstaklingi af þúsaldarkynslóðinni, sem er „vandræðalega háður TikTok“. 

Tæplega 15 þúsund manns hafa meðal annars horft á nýlegt myndband Sindra þar sem hann signir sig og dansar við smellinn „Ja Ja Ding Dong“ úr Eurovisionmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga. Sindri svarar á aðgangi sínum spurningum um málefni sem tengjast trú en tæplega 24 þúsund manns hafa horft á eitt nýjasta myndband hans þar sem hann svarar spurningum um afstöðu sína gagnvart samkynhneigð og þungunarrofi.

Hægt er að fylgjast með Séra Sindra Geir á TikTok en nokkur vinsæl myndbönd hans má sjá hér að neðan. 

mbl.is