Börn þurfa að vera aðeins frjáls

„Mitt ráð til fólks er klárlega það að flækja þetta …
„Mitt ráð til fólks er klárlega það að flækja þetta ekki fyrir sér. Það þarf ekki að vera flókið að smyrja ofan í fólkið sitt og drífa sig af stað,“ sagði Gunna Stella í Ísland vaknar þar sem hún ræddi um leiðir til að einfalda sumarfríið. mbl.is/Kristinn Magnússon

 „Oft þegar það er að koma sumarfrí og krakkarnir eru að fara í frí í skólanum og leikskólarnir eru að fara í frí, þá byrjar fólk í ákveðnu ástandi: Á hvaða námskeið á ég að skrá börnin mín? Hvað á ég að gera? Börnin mín þurfa að hafa eitthvað að gera,“ sagði Gunna Stella heil­su­markþjálfi í samtali við Ísland vaknar í morgun.

Hún mætti í morgunþáttinn á K100 til að ræða leiðir fyrir fólk og fjölskyldur til að einfalda sumarfríið en nýjasti pistill hennar fjallar einmitt um það. Þar bendir hún meðal annars á það að vera ekki að gera of mikil plön í sumarfríinu.

„Það sem börnin oft þurfa er að fá að vera aðeins frjáls. Að fá að upplifa að fara bara að leika við vini sína. Sofa aðeins lengur. Gera eitthvað skemmtilegt. Fara í smá ævintýraferðir. Það þarf ekki að vera flókið. Ef við erum að fylla dagskránna þeirra þá eru þau ekki að upplifa að þau séu í fríi,“ sagði Gunna Stella í þættinum. 

Ekki nauðsynlegt að vera yfir nótt

„Það er svo mikilvægt að muna að njóta. Sumarið er ekki langt. Þetta er stuttur tími sem við höfum. Það þarf ekki að vera að þetta sé endilega yfir nótt eða í marga daga sem við þurfum að fara í ferðalag til að upplifa að við séum í sumarfríi. Þetta þarf ekki að vera í marga daga,“ sagði hún og bætti við að hún hafi til að mynda farið með fjölskyldunni í dagsferð á „Suðurlandsrúntinn“ svokallaða á dögunum og heimsótt meðal annars Gullfoss og Geysi. Lagði fjölskyldan ekki af stað fyrr en um klukkan tvö og var komin um tíuleytið til baka. „Þetta var geggjaður dagur,“ sagði hún. 

„Mitt ráð til fólks er klárlega það að flækja þetta ekki fyrir sér. Það þarf ekki að vera flókið að smyrja ofan í fólkið sitt og drífa sig af stað,“ sagði Gunna Stella.

Hlustaðu á allt spjallið við Gunnu Stellu í Ísland vaknar spilaranum hér að neðan.

mbl.is

#taktubetrimyndir