Fjalla um mál Birnu Brjánsdóttur

Í sakamálahlaðvarpinu Crime Junkie er meðal annars fjallað um það …
Í sakamálahlaðvarpinu Crime Junkie er meðal annars fjallað um það hvernig mál Birnu Brjánsdóttur hafði áhrif á alla þjóðina. Myndin er tekin í fjölsóttri minningarathöfn um Birnu sem haldin var á Laugarvegi og við Arnarhól árið 2017. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mál Birnu Brjánsdóttur er tekið fyrir í nýjasta hlaðvarpsþætti sakamálahlaðvarpsins Crime Junkie en hlaðvarpið er eitt vinsælasta sinnar tegundar á flestum hlaðvarpsveitum. 

Mál Birnu, ungrar konu sem hvarf og fannst látin í byrjun árs 2017, skók íslensku þjóðina sem fylgdist grannt með rannsókn málsins en leitin að henni var ein sú umfangsmesta hér á landi. Grænlenski skipverjinn Thomas Møller Ol­sen var í kjölfar rannsóknar dæmdur til 19 ára fangelisvistar fyrir morðið á Birnu og stórfellt fíkniefnabrot.

Segjast þáttstjórnendur Crime Junkie, hinar bandarísku Ashley Flowers og Brit Prawat, hafa fengið ábendingu um mál Birnu frá íslenskum aðdáendum þáttanna.

Í hlaðvarpinu er fjallað í smáatriðum um ýmis sakamál, morð og mannshvörf og fara þáttastjórnendur ítarlega í hvert mál en hlaðvarpið er með topp tíu vinsælustu hlaðvörpum á flestum hlaðvarpsveitum svo sem á Spotify og Apple Podcasts.

Í þættinum um Birnu er mál hennar rakið og vekja þáttastjórnendur meðal annars athygli á lágri morðtíðni á Íslandi og þeim áhrifum sem mál Birnu hafði á Íslendinga. Á vefsíðu hlaðvarpsins er einnig að finna nánari upplýsingar um málið, meðal annars myndir og myndskeið tengd málinu auk heimilda sem notaðar voru í hlaðvarpinu.

Sakamálahlaðvarpið Crime Junkie er eitt vinsælasta sinnar tegundar á flestum …
Sakamálahlaðvarpið Crime Junkie er eitt vinsælasta sinnar tegundar á flestum hlaðvarpsveitum en hlaðvarpið er meðal annars í Topp tíu á vinsælustu hlaðvörpum Spotify og Apple Podcasts. Í hlaðvarpinu er fjallað í smáatriðum um ýmis sakamál, morð og mannshvörf.

Hægt er að hlusta á þáttinn á flestum hlaðvarpsveitum en hér að neðan er þátturinn á streymisveitunni Spotify. 

mbl.is